Átökin í Tsjetsjeníu

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:17:22 (303)

1999-10-11 15:17:22# 125. lþ. 6.1 fundur 44#B átökin í Tsjetsjeníu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég deili áhyggjum af þessu máli með hv. þm. Það kom skýrt fram þegar Igor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, kom hingað í opinbera heimsókn að hann hafði miklar áhyggjur af málum í Kákasushéruðunum og þeim hryðjuverkum sem áttu sér stað bæði í Moskvu og öðrum borgum Rússlands. Þetta mál var ekki komið upp þá en greinilegt var á öllum samtölum sem hann átti, m.a. við hv. utanrmn., að mikil spenna var í loftinu.

Ég hef átt þess kost að ræða þetta mál á vettvangi Evrópuráðsins en aðilar á vegum Evrópusambandsins fóru nýlega til Moskvu til að ræða þetta mál og ýmis önnur við Rússa. Ég ræddi það jafnframt sl. föstudag við varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, Strobe Talbott, sem er sérfræðingur í málefnum Rússlands og komu fram miklar áhyggjur hjá honum.

Ég er því sammála að auðvitað beri að gera allt sem hægt er til að leysa deiluna friðsamlega. Ég er sammála hv. þm. að það á ekki að fara á íbúa héraðs eða ríkja með vopnavaldi. Á þetta leggur alþjóðasamfélagið áherslu. Íslendingar styðja þau sjónarmið og munu halda áfram að ræða þessi mál á erlendum vettvangi. Ég mun t.d. í ferð minni til Úkraínu innan skamms ræða þessi mál við þarlend stjórnvöld en náið samstarf er milli Úkraínu og Rússlands á þessum sviðum. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri.