Menningarhús á landsbyggðinni

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:26:19 (309)

1999-10-11 15:26:19# 125. lþ. 6.1 fundur 45#B menningarhús á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og menn muna var þetta mál talsvert rætt á sl. vetri og viðbrögðin við hugmyndinni mjög misjöfn. Í mörgum kjördæmum kom fram að menn töldu að vinna þyrfti að fara fram innan þeirra til að menn sameinuðust þar um, t.d. ef ráðist yrði í byggingu menningarhúsa, hvar þau skyldu rísa. Það varð síðan að ráði og var að frumkvæði menntmrn. tekið upp við Byggðastofnun að fara í viðræður við hana um þessi menningarmál og hvernig best yrði staðið að því að skipuleggja menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Einnig kom fram í umræðunum að alls ekki væri vilji til þess alls staðar að ráðast í byggingar heldur að ríkið kæmi að því á annan hátt að styðja við menningarlíf í einstökum byggðarlögum. Síðan hefur það gerst að Byggðastofnun hefur ráðið sérstakan starfsmann til að sinna þessu verkefni, menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Milli hans og menntmrn. hefur tekist góð samvinna. Ég lít þannig á að þetta mál sé enn á stefnumótunarstigi, bregðast þurfi við þeim misjöfnu viðbrögðum sem komu fram á sl. vetri og vinna úr þeim hugmyndum sem voru settar fram í tengslum við stefnumörkunarkynningu ríkisstjórnarinnar og átta sig betur á því hvernig unnt er að koma að þessum málum á einstökum stöðum. Þess vegna hefur t.d. ekki verið gengið sérstaklega til samninga við Akureyrarbæ um byggingu menningarhúss. Hins vegar er unnið að því að endurskoða samning við Akureyrarbæ um menningarsamning sem er á milli ríkisins og Akureyrarbæjar. Í fjárlagafrv. sést að við gerum ráð fyrir aðeins hærri fjárveitingu til Akureyrarbæjar til menningarstarfsemi á grundvelli þess samnings. En það hefur ekki verið gengið til samninga um menningarhús.

Þegar ég var á Akureyri og hafist var handa við framkvæmdir við nýbyggingar þar vegna háskólans þá töldu menn að æskilegt væri að menningarhús risi í tengslum við hann. Gagnvart ráðuneytinu hafa komið fram ýmsar hugmyndir en ráðuneytið hefur ekki samið við Akureyrarbæ né nokkurn annan um framkvæmdir af þessu tagi og málið er enn á því stigi að verið er að vinna úr hugmyndum sem komið hafa fram.