Fræðslunet

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:34:42 (315)

1999-10-11 15:34:42# 125. lþ. 6.1 fundur 46#B fræðslunet# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tel að stofnun símenntunarmiðstöðva og fræðsluneta á landsbyggðinni sé með því gleðilegra sem verið hefur að gerast í fræðslumálum okkar á undanförnum missirum. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að slíkar miðstöðvar eða fræðslunet hafa komið til sögunnar í öllum kjördæmum landsins og á degi símenntunar, 28. ágúst, tókum við einmitt þátt í því þegar Fræðslunet Suðurlands var stofnað.

Í fjárlögum ársins 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingum til þessara fræðsluneta. Við fjárlagafrv. fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir því að þessi málaflokkur verði undir einum hatti samkvæmt fjárlagafrv. og síðan verði samið við einstakar miðstöðvar og fræðslunet á grundvelli þeirra verkefna sem þessir aðilar eru að bjóða. Þarna er um að ræða samstarf á milli framhaldsskóla og háskóla og aðila atvinnulífsins og mjög mikilvægt að þessi starfsemi þróist til að unnt sé að veita símenntun og endurmenntun og einnig að skólarnir starfi í sem nánustum tengslum við umhverfi sitt. Ég er því mjög hlynntur því að þessi starfsemi eflist og tel að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir því að veita fé, eins og menn sjá í tillögum þar, til að þessar stofnanir geti starfað áfram og það verði síðan á samningsbundnum forsendum sem menntmrn. mun gera við einstakar stofnanir þegar verkefni þeirra liggja fyrir.