Nýr búvörusamningur

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:41:26 (319)

1999-10-11 15:41:26# 125. lþ. 6.1 fundur 47#B nýr búvörusamningur# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við verðum að láta okkur þau nægja svo langt sem þau ná á þessu stigi málsins. Það er bót í máli að viðræðunefnd er komin á fulla ferð á nýjan leik þó að ég eigi nú erfitt með að skilja að það skyldi þurfa meiri part sumarsins til að endurskipuleggja þetta ferli. Æskilegast hefði verið að menn hefðu getað brett upp ermar og farið á fulla ferð með málið strax á vordögum.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra í leiðinni að því hvernig hann hugsi sér samskipti við Alþingi og þar á meðal bæði landbn. Alþingis og eftir atvikum aðra aðila sem eðlilegt væri að hafa samráð við, svo sem eins og þá sem fara með vinnu að fjárlagagerð og öðru slíku því að ljóst er að hér hljóta að fjármunir og fjárhagslegar skuldbindingar ríkisvaldsins að koma til ef ná á samningi. Ég tala ekki um þar sem ráðherra gerði sér vonir um góðan samning til langs tíma. Þá erum við væntanlega og nokkuð augljóslega að tala um allmikla fjárhagslega skuldbindingu ríkisins í þessu sambandi og eðlilegt að þingið sé að einhverju leyti haft þar með í ráðum ef hæstv. ráðherra gæti að einhverju leyti upplýst um þetta. Auk þess hvet ég ráðherra að vinna vasklega og brýni hann til dáða í þessum efnum og geri það örugglega fyrir hönd okkar allra þingmanna.