Hvalveiðar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:44:16 (321)

1999-10-11 15:44:16# 125. lþ. 6.1 fundur 48#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. sjútvrh. og lýtur að undirbúningi hvalveiða. En eins og hv. þm. er ljóst var samþykkt þingsályktun um hvalveiðar í lok síðasta þings þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.``

Og síðar í ályktuninni segir:

,,Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar.``

Spurning mín til hæstv. sjútvrh. er:

Hvernig gengur sá undirbúningur og sú kynning sem Alþingi fól ríkisstjórninni?