Hvalveiðar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:45:10 (322)

1999-10-11 15:45:10# 125. lþ. 6.1 fundur 48#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Málið stendur þannig að kynning á málstað okkar meðal viðskiptaþjóða er í undirbúningi í ráðuneytinu. Málið er auðvitað mjög vandmeðfarið og nauðsynlegt að undirbúa það vel. Sú kynning mun væntanlega fara af stað innan tíðar.

Í síðustu viku fór fram fundur NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins. Það sem gerðist markvert þar var að vísindanefndin lagði fram niðurstöður sínar á rannsóknum á stöðu langreyðarstofnsins og telur að sá stofn þoli veiðar upp á um 200 dýr á ári. Það mun auðvitað styrkja málstað okkar mjög verulega.

Síðan hefur verið í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar að gerast aðili að CITES. Það er m.a. í tengslum við umræður sem hafa átt sér stað á milli íslenskra og norskra stjórnvalda þar sem Norðmenn hafa lagt fram tillögu fyrir næsta fund CITES þess efnis að hrefnan í Austur- og Mið-Atlantshafi verði tekin af lista yfir dýrategundir sem taldar eru vera í hættu. Norðmenn hafa freistað þessa áður og fengu þá meiri hluta atkvæða fyrir tillögu sinni. Hins vegar þarf aukinn meiri hluta til þess að breyta skráningu sem þessari. Við munum mjög líklega aðstoða Norðmenn í þessu máli en það mun ráðast á fundi CITES í apríl hvort markmið Norðmanna næst eða ekki.

Hver sem niðurstaðan á þeim fundi verður þá tel ég að það verði mjög mikilvægt fyrir frekari þróun þessa máls. Takist að ná hrefnunni af þessum lista þá væri það meiri háttar mál fyrir okkur. Það mundi breyta stöðu málsins gjörsamlega. Ef Norðmönnum tekst þetta ekki þá tel ég líklegt að þeir þurfi að meta alla sína stöðu í hvalveiðimálum upp á nýtt. Það getur einnig haft miklar breytingar í för með sér fyrir framvindu málsins.