Hvalveiðar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:47:34 (323)

1999-10-11 15:47:34# 125. lþ. 6.1 fundur 48#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þetta svar. Ég hafði satt að segja vonað að eitthvað örlítið meira hefði verið gert en þar kom fram, kannski fyrst og fremst varðandi kynningu meðal viðskiptaþjóða okkar. Það kom ekki glöggt fram í svari hæstv. ráðherra hvernig að því hefur verið staðið. Það er ýmislegt í pípunum og því ber náttúrlega að fagna. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að það er ýmislegt í undirbúningi. Ég vil hvetja hann og aðra þá hæstv. ráðherra sem hafa með þetta mál að gera að standa kröftuglega að því og minni á þann mikla vilja sem kom fram um þetta mál á þinginu sl. vor. Þá urðu miklar umræður um þáltill. sem ég flutti ásamt ellefu öðrum þingmönnum, þar á meðal hæstv. núv. sjútvrh., og var mikill stuðningur við málið hér í þinginu. Ég minni á nál. meiri hluta sjútvn. þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginefni tillögunnar og leggur til við Alþingi að ályktað verði um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta ... Miðað er við að það geti orðið eigi síðar en á næsta ári.``

Ég minni á ... (Forseti hringir.) Nú vill forseti ekki að ég tali lengur þannig að ég kem þá bara í þriðja sinn.