Lagaskil á sviði samningaréttar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:58:21 (327)

1999-10-11 15:58:21# 125. lþ. 6.3 fundur 70. mál: #A lagaskil á sviði samningaréttar# frv. 43/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur þetta frv. áður komið til umfjöllunar Alþingis þótt ekki hafi gefist tími til að ljúka afgreiðslu þess á síðasta ári.

Hér er um að ræða nauðsynlega réttarbót til þess að taka af ýmis tvímæli sem komið hafa upp og kunna að koma upp á sviði samningsréttar þegar gerður er samningur á milli aðila yfir landamæri. Það er ástæða til að fagna því eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra að þau ákvæði sem hér á að leiða í lög ná yfir fleiri samninga en bara samninga milli aðila innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þessi lög ná þannig líka yfir þá sem eru í viðskiptum við íslenska einstaklinga eða fyrirtæki þó þau séu utan þess svæðis.

Ég tel nauðsynlegt að samþykkja þessi lög til þess að eyða óvissu sem verið hefur. Ég hef kannski því einu við að bæta að ánægjulegra hefði verið ef við hefðum verið hér saman komin til þess að leiða í lög ákvæði ekki Rómarsamningsins heldur Rómarsáttmálans. En þetta er kannski skref í þá áttina, hvort tveggja var gert í Róm þótt annað sé sáttmáli og hitt samningur. Við erum að þoka okkur í þessa átt. Þó eru atriði sem ég vildi gjarnan að menn skoðuðu sérstaklega í hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar. Það er í fyrsta lagi ákvæði um neytendasamninga í 5. gr. og í öðru lagi ákvæði um vinnusamninga í 6. gr.

[16:00]

Það sem ég vildi að yrði skoðað sérstaklega er hvernig þessi lög ná yfir svokölluð viðskipti sem eiga sér stað í gegnum internetið, þ.e. þegar neytandi í einu landi kaupir vöru sem er boðin til sölu á interneti í öðru, þá er gert ráð fyrir samkvæmt ákvæðum 5. gr. að hann njóti neytendaverndar samkvæmt lögum í því landi sem hann er búsettur í. Nú kann að sjálfsögðu svo að fara að sá sem selur vöruna standi ekki í skilum með vöruna eða selji hana einhvern veginn öðruvísi en kaupandi gerði ráð fyrir þegar hann gekk frá samningi og greiðslu. Því er forvitnilegt að efh.- og viðskn. skoði það hvort að þessi lög, sem auðvitað eru íslensk lög þó þau séu til samræmis við lagasetningu á hinu Evrópska efnahagssvæði, veiti neytandanum íslenska sem er að kaupa vöru með þessum hætti tryggingu fyrir því að neytandaréttur hans sé virtur eins og íslensk lög heimila.

Einnig mundi ég vilja að hv. efh.- og viðskn. athugaði sérstaklega ákvæði 6. gr. um vinnusamninga, hvort hætta kunni að vera á því að hún opni fyrir þá möguleika að launþegar geti samið eða réttara sagt atvinnurekendur geti gert vinnusamninga við launþega sem vistaðir eru í því landi innan hins Evrópska efnahagssvæðis þar sem réttindi launþeganna eru lakari en yfirleitt í öðrum löndum.

Þessi tvö atriði þurfa menn sérstaklega að skoða og ég vona að hv. efh.- og viðskn. gefi sér góðan tíma til þess að fara yfir þessar tvær greinar. Þetta er tæknilega flókið frv. og ekkert við því að segja. En markmiðið með því er mjög gott og ég tel sjálfsagt að Alþingi afgreiði málið.