Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:02:54 (328)

1999-10-11 16:02:54# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum og einnig breyting á lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum. Ég mæli sem sagt fyrir bandormsfrumvarpi, herra forseti, þar sem að um er að ræða breytingar á ákvæðum tveggja lagabálka.

Ég vil byrja á að fagna því að hér eru viðstaddir bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., en báðir hafa látið bankamál nokkuð til sín taka og ég vonast til þess að þeir geti heiðrað okkur með nærveru sinni á meðan umræða um þetta mál fer fram.

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að um bankamál hafa verið miklar umræður á Íslandi á undanförnum missirum að segja má, ekki síst núna síðsumars og í haust. Tengist það breytingum á eignarhlut ríkisins í lánastofnunum, áformum um einkavæðingu eða hlutaeinkavæðingu þessara fyrirtækja og fleira í þeim dúr.

Eðlilegt er að um þetta verði umræður því að hér eru stór og mikilvæg mál á ferð og miklir fjármunir í húfi þar sem er meðferð á eignarhlut ríkisins í þessum stofnunum. Um þessi mál hafa að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir pólitískt og mætti ýmislegt um það segja hvort hér var haldið í rétta átt yfirleitt og þá hvort réttum aðferðum var beitt. En ef við horfum á málin ósköp einfaldlega út frá þeim aðstæðum sem nú eru uppi og þeim breytingum sem gerðar hafa verið, umdeildar eða ekki umdeildar sem þær voru þegar ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög og þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var stofnaður úr nokkrum stærstu fjárfestingarlánasjóðum landsins, þá hljótum við öll a.m.k. að geta orðið sammála um að þær leikreglur sem fylgt er, þ.e. framkvæmdin sjálf, aðferðafræðin þar, skiptir líka miklu máli. Um það ekki síst snýst þetta frv., þ.e. að leggja til tilteknar breytingar eða ráðstafanir, gætum við sagt, sem gerðar verði í lögum þannig að um banka sem búið er að breyta í hlutafélög og eftir atvikum að einhverju leyti eru komnir á markað, eru einkavæddir eða verða einkavæddir, sé búið með tilteknum hætti í löggjöf landsins.

Hér á ég einkum og sér í lagi við þá miklu umræðu sem orðið hefur um nauðsyn þess að dreifa eignarhaldi á bönkum sem reknir eru sem hlutafélög á almennum markaði, þ.e. þar sem hlutaféð er skráð á verðbréfaþingi og gengur kaupum og sölum.

Þessi umræða tengdist bæði hlutafjárútboði í Búnaðarbanka og Landsbanka þar sem gripið var til aðgerða sem áttu að tryggja mikla dreifingu eignarhlutarins í frumsölu, fyrst og fremst með því að almenningur gat skráð sig fyrir tilteknum upphæðum til kaups. Svipaða sögu má segja af sölu á eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þeim 49% sem upphaflega voru seld og ákvæði voru um í lögum að leita sérstaklega að dreifðri eignaraðild á og síðan af undirbúningi að þeirri sölu sem stendur yfir á því sem eftir er af eignarhlut ríkisins, en þar er sömuleiðis að finna í heimildarlögum frá Alþingi ákvæði um að keppt skuli að sem allra dreifðastri eignaraðild, þó að vísu með nokkuð öðru orðalagi en var í hinum upphaflegu lögum.

Hæstv. forsrh. hefur ekki síst verið fyrirferðarmikill í umræðu um nauðsyn þess að dreifa eignaraðildinni og leyfi ég mér að vitna m.a. í viðtöl sem við hann hafa verið tekin í Morgunblaðinu. Einnig mætti reyndar vitna í afstöðu Morgunblaðsins sjálfs sem hefur tekið nokkuð afdráttarlausa afstöðu í því máli, þ.e. að stefna beri að sem dreifðastri eignaraðild. Þetta var m.a. tilefni leiðaraskrifa og umfjöllunar í Morgunblaðinu ítrekað í síðari hluta septembermánaðar og þá að nokkru leyti í framhaldi af sjónarmiðum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson setti fram í þessu efni og urðu tilefni orðaskipta milli bæði hv. þm. og hæstv. forsrh. og einnig Morgunblaðsins.

Morgunblaðið vitnaði réttilega í orð hæstv. forsrh. síðan fyrir rúmu ári, í ágústmánuði 1998. Ef ég man rétt lýsti hæstv. forsrh. skoðunum sínum í viðtali við Morgunblaðið 8. ágúst 1998 og sagði þá m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Sumar þjóðir hafa það reyndar svo að þær binda það í lög hversu mikil eignarhlutdeild einstakra aðila má vera í bönkunum. Ég hygg að það sé til að mynda þannig í Noregi. Það má vel vera að slíkt gæti verið skynsamlegt að gera einnig hér á landi. A.m.k. er það æskilegt að menn hafi ekki á tilfinningunni að það séu einhver önnur sjónarmið sem ráði stefnu banka en almenn arðsemisjónarmið eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps, ...``

Í sama viðtali sagði hæstv. forsrh. Davíð Oddsson einnig, með leyfi forseta:

,,... þó nú sé tíska að tala um kjölfestufjárfesta telji hann að í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilarnir, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forustu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis.``

Morgunblaðið heldur því fram nokkuð skörulega t.d. í forustugrein föstudaginn 13. ágúst að það sé eins og hver önnur fjarstæða að halda því fram að ekki sé unnt að tryggja dreifða eignaraðild að bönkum. Í nefndri forustugrein segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þeir sem halda því fram, að það sé óframkvæmanlegt að tryggja dreifða eignaraðild að bankakerfinu hafa rangt fyrir sér. Þar étur hver upp eftir öðrum sömu tugguna og hafa ekki fyrir því að kynna sér efni málsins. Í öðrum löndum eru margvíslegar takmarkanir á viðskipti með hlutabréf.``

Síðan er reyndar aftur vitnað í hæstv. forsrh. Davíð Oddsson í þessu máli.

Ég læt þetta duga, herra forseti, en ég er með útskriftir af fleiri ummælum sem mætti vitna í og einkum og sér í lagi þar sem fyrir fer hæstv. forsrh. í því að rökstyðja bæði þörfina á því eða nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild og jafnframt að rökstyðja að slíkar ráðstafanir sé hægt að gera.

Svo enn sé nú vitnað í þann ágæta fjölmiðil Morgunblaðið sem hefur af miklum þrótti fjallað um þetta mál á undanförnum vikum þá var þar birt úttekt unnin af blaðamanni væntanlega, Steingerði Ólafsdóttur, sem hafði kynnt sér skýrslu bankaeftirlits Bandaríkjanna hvað varðar takmarkanir á fjárfestingum einstakra aðila í bönkum, annarra en fjármálafyrirtækja. Niðurstaða þeirrar úttektar var sú að slíkar fjárfestingar væru skilyrðum háðar í 14 löndum af 19 sem könnunin tók til og þar af væru verulegar takmarkanir hjá a.m.k. sex ríkjum. Það voru Bandaríkin, Japan og Kanada auk Svíþjóðar, Ítalíu og Lúxemborgar sem öll eru Evrópusambandsríki eins og kunnugt er.

Þessar takmarkanir eru af ýmsum toga en það má t.d. nefna þær ströngu reglur sem gilda í Kanada í þessum efnum sem upphaflega voru settar í kanadísk lög til að tryggja að bandarískir bankar gleyptu ekki minni kanadíska banka. Þegar t.d. Chase Manhattan bankinn ætlaði að taka Toronto Dominon bankann traustataki á miðjum sjöunda áratugnum gripu Kanadamenn til varna og settu lög sem tryggja að enginn einstakur hluthafi má eiga meira en 10% hlut í kanadískum banka, hvort sem um er að ræða fjármálafyrirtæki eða ekki.

Það má nefna slíkar takmarkanir í fleiri löndum. Á Ítalíu er þetta þannig að eignarhlutur annarra en fjármálafyrirtækja má ekki fara yfir 15% og í Svíþjóð og Lúxemborg eru takmarkanir af ákveðnum toga.

Ef litið er til þess hversu dreift eignarhaldið er þá skiptir það máli í þessu sambandi því að á meðan að þeir hlutir eru í góðu lagi er í sjálfu sér kannski ekki þess að vænta að farið sé að setja strangar takmarkanir í lög. Þau hafa gjarnan sprottið upp af einhverjum aðstæðum eins og dæmið frá Kanada sannar. En staðreyndin er sú þegar litið er á eignarhald stærri banka t.d. á Norðurlöndunum eða í Vestur-Evrópu að þá er það með mjög fáum undantekningum að langmestu leyti þannig að um mjög marga smáa eigendur er að ræða.

Noregur er okkur skyldur að ýmsu leyti í þessum efnum vegna þess að þar er enn við lýði mikið eignarhald ríkisins í bönkunum og norska ríkið er meirihlutaeignaraðili eða ráðandi eignaraðili að stærstu bönkum Noregs. Það á t.d. 52% í Den Norske Bank og 35% í Kristjaníubanka. Stærsti erlendi hluturinn eða stærsti einstaki hluturinn í stórum norskum banka, ef ég hef lesið hér rétt, er eignarhlutur Chase Manhattan bankans í Bank of Norway sem er upp á 5,22%. Það er sjaldgæft að sjá meiri eign en þessa og á bilinu upp í kannski 14--16% þegar í hlut eiga stærstu bankar á Norðurlöndunum. Erlend eignaraðild er sjaldnast nema á bilinu 10--30% í þessum bönkum.

Herra forseti. Þetta nægir um dreifingu á þessum hlutum í nágrannalöndunum. Þar er þó um að ræða verðbréfaþing að sjálfsögðu og markaði sem eru margfaldir og tugfaldir að stærð á við það sem er á Íslandi. Þar eiga þeir sér mun lengri sögu og mun meira fjármagn er í umferð. Þar eru tæpast sömu hættur fyrir hendi hvað varðar samþjöppun fjármálalegs og stjórnunarlegs valds og blasa við okkur alls staðar í hinum smáa íslenska fjármálaheimi.

Herra forseti. Þó það sé góðra gjalda vert að leitast við að tryggja dreifða eignaraðild í frumsölu ef um er að ræða beina sölu á hlut ríkisins í banka eða lánastofnun eða sölu á nýju hlutafé, þá mun slíkt koma að harla litlu gagni. Í því er ekki fólgin nein trygging fyrir því að eignarhaldið verði dreift til frambúðar eins og dæmin sanna. Við höfum séð hvernig eignarhald hefur sópast saman á fáar hendur tiltölulega hratt í beinu framhaldi af dreifðri frumsölu þannig að eðlilega kemur upp spurningin hvort það hafi nokkuð upp á sig, sé til nokkurs nema jafnframt séu einhverjar reglur og þá í lög sem að tryggi ákveðna lágmarksdreifingu eignarhaldsins til frambúðar.

[16:15]

Mín skoðun er sú og ég held að nánast sé óþarft að rökstyðja það að meiri líkur en minni eru á því við okkar sérstöku aðstæður að eignarhaldið geti þjappast hratt saman ef engar slíkar takmarkanir er að finna í lögum. Jafnvel þó í hlut eigi allstór fyrirtæki á okkar mælikvarða og umtalsvert fjármagn þurfi til að safna saman verulegri eign þá sjáum við slíka atburði gerast í viðskiptalífinu og gerast hratt, að eignarhlutir sem nema hundruðum milljóna króna sópast saman á fáar hendur eða eina hendi, jafnvel einstök viðskipti með ráðandi hlut í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ákveðin eru á einni nóttu, færa til fjármuni svo nemur hálfum eða heilum milljarði. Með öðrum orðum þar af leiðandi er síður en svo ólíklegt að stór eignarhlutur eða jafnvel ráðandi eignarhlutur í stofnun á stærð við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eða Búnaðarbankann gæti sópast saman á eina hendi eða hendur skyldra og tengdra aðila, nema einhverja skorður sé reistar við því í lögum.

Um hætturnar sem því eru síðan samfara og ókosti þess að það gerist þurfum við væntanlega ekki að fara mörgum orðum. Það er mjög óæskilegt að einhverjir slíkir aðilar geti náð undirtökunum og ráðið slíkri stofnun. Það dregur úr áhuga annarra að vera þar meðeigendur og það er óæskilegt og óheilbrigt í mörgu tilliti, sérstaklega þegar í hlut eiga stofnanir eins og almennir viðskiptabankar.

Hvaða kostir eru þá í stöðunni, herra forseti? Það má í fljótu bragði segja að þeir gætu verið þrír. Það er í fyrsta lagi að staldra ósköp einfaldlega við, að stöðva sig af og aðhafast ekkert frekar, a.m.k. í bili, hvað varðar einkavæðingu eða sölu á þessum eignarhlut. Sú umræða hefur svo sannarlega komið ítrekað upp á undanförnum mánuðum.

Kostur númer tvö er sá að velja það sem ég kýs að kalla norsku leiðina, þ.e. að ríkið haldi umtalsverðum eignarhlut í stærstu og mikilvægustu bönkunum og lánastofnunum, verði sem sagt ráðandi eigandi á móti þá væntanlega og gjarnan nokkrum fjölda smærri meðeigenda. Það fyrirkomulag hefur verið við lýði í Noregi um alllangt árabil. Mér er ekki kunnugt um að neinar sérstakar hugmyndir séu uppi um að breyta því og Norðmenn telja, a.m.k. margir hverjir sem ég hef rætt við, að það hafi gefist þeim allvel. Það hafi tryggt stöðugleika á þessum markaði og eigi sinn þátt í því að Norðmenn sluppu kannski skár en margir aðrir í gegnum þær miklu bankakreppur sem urðu mönnum dýrar í nágrannalöndunum.

Þriðji kosturinn er síðan sá sem hér er mælt fyrir að í öllu falli verði tekinn, burt séð frá öllu öðru, með lögum, með almennum ákvæðum í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og lögum um lánastofnanir, að hámarkseignarhlutur einstakra aðila, annarra en ríkisins, geti aldrei farið upp fyrir visst mark, og hafa verið valin viðmiðunarmörkin 8% og mun ég færa nokkur rök fyrir því á eftir hvers vegna sú niðurstaða var valin.

Herra forseti. Ég ætla að mæla fyrir einstökum efnisgreinum frv. Á þessu stigi málsins held ég að rétt sé að rekja það aðeins ítarlegar í hverju efnisþættir frv. eru fólgnir. Í 1. gr. segir að í stað 3.--6. mgr. 10. gr. og 11. og 12. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, komi ein ný grein sem verði 11. gr. og orðist eins og þar segir.

Þessi ákvæði gildandi laga, þ.e. 3.--6. mgr. 10. gr. og 11. og 12. gr., fjalla um þær aðstæður sem koma upp ef einn einstakur aðili eignast það sem kallað er í lögunum ,,virkan eignarhlut`` eða meira. Lögin miða þar við 10% og í þessum málsgreinum 10. gr. og síðan í 11. og 12. gr. er fjallað um með hvaða hætti skuli þá fara með málin. Fjármálaeftirlitið tekur að sér í rauninni að fara sérstaklega með þær aðstæður sem þá koma upp, að fylgjast sérstaklega með eignarhlut viðkomandi aðila og Fjármálaeftirlitið getur eða þ.e. viðskrh. getur, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, jafnvel gripið til ráðstafana af því tagi að svipta viðkomandi aðila atkvæðisrétti þegar eignarhlutur er orðinn svo stór.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í lögunum að ástæðulausu. Þarna voru hugsaðar ákveðnar girðingar gagnvart því að einstakir aðilar yrðu of frekir til fjárins eða of fyrirferðarmiklir í stjórnun og rekstri slíkra stofnana. Ég tel að það sé hins vegar krókótt leið og að mörgu leyti erfið í framkvæmd, að leyfa mönnum að eignast meira en sem nemur þessum krítísku mörkum sem þarna var valið að miða við, 10%, en svipta þá að hluta til rétti sínum eins og atkvæðisrétti til þess að reyna að fyrirbyggja að þeir verði of áhrifamiklir um stjórn bankans.

Það er niðurstaða okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem flytur frv. ásamt mér, að hreinlegast sé að setja skýr og afdráttarlaus mörk, þak eða hámark á það hvað hver einstakur eignaraðili geti orðið stór.

Greinin mundi þá hljóða svo:

,,Einstökum aðilum, öðrum en ríkissjóði, og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum er óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka. Viðskiptabanki skal reglulega tilkynna Fjármálaeftirlitinu um samsetningu hluthafa og án tafar ef eignarhlutur einstaks aðila fer yfir fyrrgreind mörk. Hluthafi í viðskiptabanka skal tafarlaust gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi hann ástæðu til að ætla að eign hans í viðskiptabanka kunni að yfirstíga fyrrgreind mörk.``

Síðan kemur skilgreining á því hvað skuli teljast ,,skyldir aðilar og/eða fjárhagslega tengdir``, hún ætti að koma mönnum kunnuglega fyrir sjónir því að hún er sniðin að útboðslýsingu ríkisstjórnarinnar á því ágæta fyrirbæri þegar lýst var eftir áhugasömum kaupendum að afgangnum af eignarhlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þarna gætu að sjálfsögðu komið ýmsar aðrar útgáfur til greina sambærilegs eðlis. Í lögum er víðar að finna tilraunir til að skilgreina hvernig skuli meðhöndla eða skilgreina hvað séu fjárhagslega skyldir eða tengdir aðilar. En þessi er ábyggilega ekki lakari en hver önnur og hún er hér nánast óbreytt frá því sem hún var í nefndri auglýsingu og vísa ég til þess.

Síðan segir:

,,Nú fer eignarhlutur einstaks aðila eða skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila yfir þau mörk sem tilgreind eru í 1. mgr. vegna atvika sem hlutaðeigandi fær ekki við ráðið og skal viðkomandi aðili eða aðilar þá svo fljótt sem við verður komið, og eigi síðar en innan sex mánaða, gera ráðstafanir til að samræma eignarhlut sinn nefndum ákvæðum 1. mgr. Ráðherra getur að fenginni tillögu Fjármálaeftirlitsins ákveðið að eignarhlut sem svo er til kominn og er umfram mörk 1. mgr. [þ.e. 8 %] fylgi eigi atkvæðisréttur svo lengi sem það ástand varir.``

Þetta er ákvæði af sambærilegum toga og það sem fyrir er í lögunum en þar er að vísu miðað við 10%.

Síðan er II. kafli, breyting á lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum. Þar segir:

,,Við 3. gr. bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., sem orðast svo: Um hámarkshlutafjáreign einstakra aðila og skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila í lánastofnun skulu gilda ákvæði 11. gr. laga nr. 113/1996.``

Valin er sú leið að vísa í takmörkunarákvæði almennu laganna um viðskiptabanka og sparisjóði í lögunum um lánastofnanir.

3. gr. er gildistökuákvæði, að ráðherra skuli setja að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins nánari reglur um framkvæmd laganna, þ.e. þessara ákvæða, og að lögin öðlist þegar gildi.

Loks er ákvæði til bráðabirgða sem gefur þeim sem kynnu að eiga eignarhlut yfir nefndum mörkum þegar lögin taka gildi rýmri aðlögunarfrest en hin almennu ákvæði laganna gera ráð fyrir.

Það er svohljóðandi:

,,Sé eignarhlutur einstakra aðila eða skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila í viðskiptabanka eða lánastofnun fyrir ofan mörk 1. efnismgr. 1. gr. laga þessara við gildistöku þeirra er ráðherra heimilt að veita hlutaðeigandi allt að tveggja ára aðlögunartíma til að gera fullnægjandi ráðstafanir til að samræma eignarhlut sinn áðurnefndum ákvæðum. Ráðherra getur við slíkar aðstæður beitt ákvæðum 3. efnismgr. 1. gr. laga þessara um takmörkun atkvæðisréttar.``

Með öðrum orðum, ef einhver einstakur aðili ætti 9% eða meira í viðskiptabanka eða lánastofnun við gildistöku laganna þá gæti hann sótt um til ráðherra að fá allt að tveggja ára aðlögunartíma til að breyta eignarhlut sínum, selja hann frá sér eða samræma hann með öðrum aðgerðum ákvæðum laganna en þá hefði ráðherra á móti möguleika á að beita ákvæðunum um atkvæðissviptingu umfram þau mörk sem lögin kveða á um, þ.e. að eignarhlutnum fylgdi ekki atkvæðisréttur nema upp að 8%.

Menn kunna að spyrja hvort þörf sé á þessu ákvæði og svarið er já. Það mundi, t.d. við lagasetningu af þessum toga nú á haustmánuðum, á þetta reyna í tilviki Íslandsbanka hf. því samkvæmt síðustu ársskýrslu Íslandsbanka eru tveir stærstu eignaraðilar að bankanum lítillega ofan við þessi mörk sem hér eru tilgreind, þ.e. Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,7% og lífeyrissjóðurinn Framsýn með 9,5%. Þriðji stærsti eignaraðilinn sleppur hins vegar undir þessi mörk, þ.e. fjárfestingarfélagið Burðarás hf., sem ég geri ráð fyrir að menn þekki. Síðan koma Sjóvá--Almennar með 5,6% og aðrir aðilar með þaðan af minni hlut.

Þetta segir með öðrum orðum að 8% mörkin liggja í efri mörkum þess sem þekkt er í dag að sé eignarhlutur einstakra aðila. Það mundi því ekki valda umtalsverðri röskun á högum þessara aðila þó að þau væru lögfest, alla vega ekki í ljósi þess að menn hefði tveggja ára aðlögunartíma að því að uppfylla ákvæðin.

Auðvitað má deila um þennan hundraðshluta, eiga þetta að vera 8%, 10% eða eitthvað annað? En mér fannst skynsamlegt eða okkur flutningsmönnum að miða mörkin við varfærnissjónarmið og vera frekar neðar en ofar með þau, m.a. með þeirri einföldu röksemdafærslu að þau er hægt að rýmka ef mönnum sýnist svo og framtíðin leiðir í ljós að ekki er sérstök þörf á því eða ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því þó að eignarhlutur einstakra aðila yrði jafnvel lítillega hærri.

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa það með í umræðunni að núna er tækifærið til að setja slík ákvæði og einmitt núna. Ef menn gera það ekki nú áður en farið verður út í frekari sölu á t.d. eignarhlut ríkisins og einstakir aðilar eignast hluti á næstu mánuðum eða missirum sem fara langt upp fyrir slík mörk verður lagasetningu af þessu tagi augljóslega síður komið við. Hún á að sjálfsögðu að koma á undan sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum og hefði að sjálfsögðu átt og þurft að liggja fyrir áður en farið var af stað út á slíka einkavæðingarbraut á annað borð. En þó er það þannig að lausleg skoðun á stöðunni á markaðnum sýnir að þessu verður enn við komið án umtalsverðrar röskunar á eignarhlut einstakra aðila.

Herra forseti. Ég held að í sjálfu sér sé ekki mikil þörf á frekari rökstuðningi fyrir þessu af minni hálfu. Ég vona að þetta fái efnislega og alvarlega skoðun á hv. Alþingi. Það er alveg óhjákvæmilegt að mínu mati að Alþingi taki af skarið í þessu máli og það verði látið á það reyna hvort pólitískur vilji er fyrir því að gera ráðstafanir til að tryggja til frambúðar og ákveðið dreifða eignaraðild í mikilvægustu fjármálastofnunum landsins. Tækifærið er núna. Menn geta sýnt í verki áhuga sinn á því að láta ekki sitja við orðin tóm, láta ekki umræðurnar einar nægja um nauðsyn þess og mikilvægi að sporna gegn óæskilegri samþjöppun fjármagnslegs og stjórnunarlegs valds í þessum mikilvægu stofnunum. Það gera fjölmargar nágrannaþjóðir og það er má segja frekar reglan en undantekningin að um einhverjar takmarkanir sé að ræða. Menn geta sagt að þær séu á undanhaldi og það á við sums staðar. En þá skulu menn líka muna eftir því að við erum að tala um Ísland og við erum að tala um að stíga fyrstu skrefin í þeim efnum að reka þessar stærstu fjármálastofnanir sem hlutafélög á markaði. Eru þau rök þá ekki býsna sannfærandi, herra forseti, að skynsamlegt sé að fara varlega af stað? Það sé skynsamlegt að hafa vaðið fyrir neðan sig, setja takmarkandi reglur og sjá svo til hver þróunin verður á markaðnum.

[16:30]

Reglurnar má endurskoða, þær má rýmka eða þess vegna fella þær alveg niður einhvern tíma í fyllingu tímans ef menn telja ekki þörf á eða ástæðu til að viðhafa slíkar takmarkanir. Mér er þó nær að halda að það muni reynast og ég spái því að þetta væri farsæl og skynsamleg ráðstöfun fyrir alla aðila, líka fyrir markaðinn. Líka fyrir þá sem hafa hug á því að fjárfesta í þessum stofnunum, að þeir viti að hverju þeir gangi í þessum efnum. Ellegar eru verulegar líkur á því að áflog hefjist um ráðandi eignarhluti í sumum þessara stofnana, áflog sem einhver vinnur að lokum en þar sem aðrir verða undir. Þeir missa þá áhugann og draga sig út úr því dæmi. (Gripið fram í.) Ég held að þetta yrði öllum til góðs, herra forseti, svo ég svari frammíkallanda, og alveg sérstaklega viðskiptavinunum, þ.e. þjóðinni.

Við þekkjum dæmi um slík áflog á einstökum sviðum í viðskiptalífinu, í fjölmiðlaheiminum eða í sjávarútveginum og forsmekkurinn í málinu er allur á þá lund að það sé næsta víst að slík áflog muni verða þegar kemur að því að glíma um þennan eignarhlut í bönkunum því þar sýnist mönnum vera mörg girnileg matarholan eins og kunnugt er.

Sambærilegar takmarkanir eru einnig þekktar í löggjöf á ýmsum öðrum sviðum. Ég nefni að það er nánast alsiða í nágrannalöndunum að mjög strangar takmarkanir séu á eignarhaldi að fjölmiðlum. Reynt er að tryggja að þar verði ekki óæskileg samþjöppun, m.a. með því að banna ráðandi aðilum á einu sviði fjölmiðlunar að eiga í öðru. Þannig mega menn t.d. hvorki vestan hafs né austan við okkur, Atlantshafsins, eiga nema tiltekinn hluta. Ef þeir eiga sjónvarpsstöð mega þeir ekki eiga nema tiltekið í dagblöðum og öfugt og þau fordæmi þekkja menn. Við höfum sjálf sett í lög ákvæði sem takmarka eignarhald útlendinga og við höfum sett í lög um stjórn fiskveiða ákvæði sem eiga að dreifa eignarhaldi á veiðiheimildum. Allt eru þetta dæmi um viðleitni til þess að sporna gegn óæskilegri samþjöppun og drottnandi stöðu einstakra eða fárra aðila.

Herra forseti. Óvíða, ef nokkurs staðar, er mikilvægara að setja slíkar reglur en einmitt þegar þessar þjónustustofnanir almennings, viðskiptabankarnir, eiga í hlut. Hér er lögð til einföld og að mínu mati fullkomlega fullnægjandi aðferð í því sambandi að setja bein takmörk inn í viðkomandi kafla laganna um viðskiptabanka og sparisjóði upp á 8% og vísa síðan í þau lög í lögunum um lánastofnanir.

Að lokum er aðeins einn fyrirvari sem ég vil gera á þeim ákvæðum og það er, herra forseti, og ég viðurkenni að þar hefðum við flutningsmenn mátt hafa meiri tíma til að skoða málið, hvort til greina kæmi að gera greinarmun á hverjir eigendurnir væru, þ.e. að hafa önnur eða eftir atvikum rýmri mörk þegar í hlut ættu t.d. viðskiptabankar, hvað varðaði eignarhlut í fjármálastofnunum sem hefðu þó starfsleyfi sem lánastofnanir. (Forseti hringir.) Fyrir því eru fjölmörg dæmi þegar um þjónustustofnanir á fjármálasviði er að ræða, að þau séu rekin sem dótturfélög banka. Það væri hlutur sem æskilegt væri að skoða í þessu sambandi og ég get vel vísað til hv. þingnefndar að gera.

Ég legg svo til, herra forseti, að lokinni umræðunni að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.