Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:33:58 (329)

1999-10-11 16:33:58# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka flutningsmönnum þetta frv. Þetta er mjög þarft frv. og vekur góða umræðu. Ég er með fjórar tæknilegar spurningar:

1. Í 1. gr. er rætt um 8% eign. Væri ekki miklu eðlilegra að miða við 8% atkvæðamagn á félagsfundi? Þá er spurningin hvort það væri af öllum mættum hluthöfum eða af heildarhluthöfum félagsins. Ég skil það þannig að flutningsmenn óttist yfirráð yfir félaginu.

2. Hvað með sparisjóði? Nú er atkvæðamagnið þar bundið stofnfjáreigendum. Ekkert er minnst á atkvæðamagn þeirra í frv. Að sjálfsögðu er engin eign þar vegna þess að þeir eru sjálfseignarstofnanir.

3. Hvernig ber að skilja 4. lið? Ég get skilið 1. málsl.: ,,Ef einstakur aðili (einstaklingur eða lögaðili) á meira en 35% eignarhlut eða atkvæðisrétt í lögaðila`` --- ég skildi það, þá eru þeir samtengdir, en svo: --- ,,eða ef einstakur aðili eða skyldir aðilar eiga samanlagt meira en 35% eignarhlut eða atkvæðisrétt í tveimur lögaðilum eða fleiri skulu þeir aðilar teljast fjárhagslega tengdir.`` Eru það þeir sem eiga, þessir tveir eða fleiri, eru þeir tengdir? Eru það félögin og eigendurnir sem eru tengdir eða hvernig ber að skilja þetta?

4. Við þekkjum sögur um fóstbræður í gömlum íslenskum sögum. Það eru menn sem bindast ákveðnum tengslum undir jarðarmeni. Hvað um þá? Hvað um perluvini og menn sem eru bara innilegir vinir og vinna saman í gegnum þykkt og þunnt en eru ekki tengdir á neinn annan máta?