Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:46:55 (335)

1999-10-11 16:46:55# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. svörin og árétta að ég hygg að ekki sé ágreiningur um hin pólitísku markmið á bak við þetta frv. og sölu ríkisstjórnarinnar á ríkisbönkunum. Um hin pólitísku markmið er ekki ágreiningur. En það kann að vera rétt að velta upp, og það tel ég m.a. kostinn við þetta frv., spurningunni um hvort þetta sé yfir höfuð framkvæmanlegt.

Þrátt fyrir þær skýru takmarkanir sem koma fram í frv., m.a. milli skyldmenna og fjárhagslega tengsla o.s.frv., mætti t.d. taka dæmi af félögum úr skóla, félögum úr blaki sem hv. þm. þekkir vel, bridsfélögum eða hvaða hóp sem vera skal. Komi þeir sér saman um að fara á svig við lög með því að búa til hóp í trausti vináttu sinnar, sem aldrei er hægt að ná yfir með lögum, með hvaða hætti getur þá framkvæmdarvaldið brugðist við? Ég sé, herra forseti, ýmsa annmarka á því en árétta þó að ég tek undir hin pólitísku markmið. Þá hljótum við að þurfa að velta fyrir okkur --- og ég hlakka til umræðunnar í hv. efh.- og viðskn. --- með hvaða hætti er þetta almennt framkvæmanlegt. Hvernig getur framkvæmdarvaldið þá brugðist við í dæmum eins og sem ég nefndi hér áðan? Er þetta þar af leiðandi raunhæft? Það er kannski stóra spurningin því ágreiningurinn um hin pólitísku markmið er ekki staðar.