Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:48:43 (336)

1999-10-11 16:48:43# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég fyllist nú æ meiri bjartsýni eftir því sem fleiri koma hér upp, taka undir þetta frv. og tala um að ekki sé í raun neinn ágreiningur um hið pólitíska meginmarkmið hér, þ.e. að tryggja dreifða eignaraðild. Ég vona svo sannarlega að þetta sé rétt og að þá fái þetta frv. og/eða einhverjar sambærilegar ráðstafanir brautargengi og við lögfestum þær, þannig að Alþingi komi því á hreint hvernig leikreglur það vill hafa í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt.

En mun þetta halda? Þá kemur upp spurningin: Ef hægt er að sanna að hugsanlega sé hægt að komst fram hjá þessu er þá lagasetningin einskis virði, á þá jafnvel að hætta við allt saman? Svarið er nei. Ef við nálguðumst málin alltaf þannig þá yrði lítið um lagasetningu hér. Það er mjög sjaldan sem ekki er, a.m.k. með þrætubókarlist, hægt að sýna fram á að það væri hægt að komast fram hjá lögum. Það væri t.d. ekki mikið um skatta í landinu ef við samþykktum þá röksemdafærslu að einstöku menn kunni að komast undan því að borga skatta og þá sé verr af stað farið en heima setið. Auðvitað ekki. Við hættum ekki að reyna að setja lög um skatta, gera þau eins held og við getum og tryggja eftirlit með þeim vegna þess að það er þrátt fyrir allt mikilvægara en að gefast upp vegna einhverra skúrka sem kunna að leita að smugum í kerfinu.

Ég sagði það áðan og endurtek að það kemur vel til greina að setja inn skúrkaákvæði, misbeitingarákvæði. Þar er hægt að fara í smiðju t.d. samkeppnislaga. Samkeppnislög eru að verulegu leyti byggð upp á þeim grunni að þar er stuðst við misbeitingarákvæði en ekki bönn, þ.e. það er bannað að hagnýta sér í óréttmætum tilgangi tiltekna stöðu. Það er hægt að kalla misbeitingarákvæði eða skúrkaákvæði og síðan er reynt að hafa ákveðið kerfi og eftirlit. Það mætti vissulega hugsa sér hér en reyndar held ég að með því að hafa takmarkanirnar skýrar og einfaldar, t.d. upp á 8% af hvort sem er eignarhaldi og/eða atkvæðisrétti, þá muni menn þurfa að fara út í kostnaðarsamar og krókóttar leiðir til að reyna að komast hjá því, t.d. að skrá eignarhlut ranglega á önnur nöfn en hann tilheyrir í raun. Það er flókið og erfitt og mun baka viðkomandi aðilum vandræði auk þess sem hægt er hafa með því eftirlit að ekki sé verið að misbeita stöðu sinni þannig. Ég treysti því að það sé hægt.