Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:04:33 (339)

1999-10-11 17:04:33# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi styð ég í sjálfu sér markmið frv. Ég vil að almenningur eigi stóran og vaxandi hlut í atvinnulífinu og það hefur sem betur fer gerst.

Einkavæðing bankanna hefur leitt til þess að tugir þúsunda einstaklinga eiga enn þá í Landsbankanum, Búnaðarbankanum og FBA, þrátt fyrir alla þá samþjöppun sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði. Að menn setji reglur um þetta annars staðar breytir stöðunni í rauninni ekki neitt fyrir mér. Ef þær reglur halda ekki og virka ekki og eru óþarfar þá sé ég ekki að við þurfum að apa þær eftir.

Ég fékk ekki svar við því af hverju samþjöppunin er óæskileg. Ég fékk ekki svar við því. Ef menn ætla að misnota það á einhvern hátt eða misbeita valdi sínu, þá fara kúnnarnir bara eitthvað annað.

Þessar stofnanir hafa nefnilega breyst úr því að vera valdastofnanir í það að vera ósköp einfaldar þjónustustofnanir sem byggja á þjónustu og lifa á þjónustu. Það er ekki lengur þannig að þær geti beitt óskoruðu valdi til að hygla mönnum eða kúga þá, eins og þegar hálf þjóðin lá á hnjánum fyrir framan bankastjórana. Ég lenti sjálfur í þeirri stöðu að vera á hnjánum. Þetta er löngu liðin tíð. Núna eru bankar hreinlega þjónustustofnanir og lifa á því að menn treysi þeim. Ég held að öll þessi umræða sé óþörf. Á meðan við höfum samkeppnislög og Samkeppnisstofnun og við sjáum til þess að samkeppni sé í lagi, þá þurfum við ekki að óttast það sem hér er verið að tala um.