Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:06:17 (340)

1999-10-11 17:06:17# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. stundum gera þau mistök, ef ég má leyfa mér að orða það svo, í röksemdafærslum sínum að ganga út frá því að hér ríki aðstæður fullkomins markaðar. Að menn hafi endalaust val og engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af því þó að einhver misbeiti stöðu sinni, einhver banki fari illa að ráði sínu eða einhver ráðandi aðili þjóni hagsmunum sínum í bankanum í krafti forræðisins, að þá geti bara allir aðrir, án þess að bera af því nokkurn skaða, snúið sér eitthvert annað. Þetta er ekkert fullkominn markaður. Til hvers eru reglur af þessu tagi, allt eftirlitið með bankastarfseminni, allar þær tryggingar sem við setjum í verðbréfaviðskiptum og hvað varðar tryggingafélög og hvað varðar viðskiptabanka? Þetta er til að reyna að koma í veg fyrir slys vegna þess að þarna er verið með fjármuni almennings í höndunum. Það er þess vegna sem allt þetta flókna kerfi er sett upp sem er auðvitað af allt öðrum toga en leikreglur í almennum vöruviðskiptum eða öðru slíku, eins og ég veit að hv. þm. þekkir. Það er vegna þess að menn vilja reyna að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir af því að reynslan sýnir mönnum að slysin eru dýr og þau taka í þegar um mikla fjármuni, sparnað almennings og eigur er að ræða. Þess vegna er þetta kerfi. Ég hef mikla trú á að við getum sett með vandaðri lagasetningu leikreglur sem þjóna sambærilegum markmiðum og gerast annars staðar í heiminum. Þess vegna finnst mér það alveg fullgild röksemdafærsla að benda á að slíkt er við lýði mjög víða annars staðar.

Halda slíkar reglur? Er hægt að framfylgja þeim? Svar mitt er alveg hiklaust já. Ég veit að hv. þm. þekkir dæmin um það úr viðskiptum í nágrannalöndunum þegar menn eru miskunnarlaust píndir til þess að selja eignarhlut sinn þvers og kruss ef hann stangast á við slíkar reglur. Rupert Murdoch, fjölmiðlakóngurinn, var stoppaður af í hverri heimsálfunni á fætur annarri þegar hann ætlaði að fara að sölsa undir sig fjölmiðla í óskyldum greinum. Hann var neyddur til að selja dagblöð í Bandaríkjunum þegar hann keypti þar sjónvarpsstöð eða var það öfugt? Það eru því fjölmörg dæmi um að reglur af þessu tagi eru settar og þeim er framfylgt og þær halda í grófum dráttum.