Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:10:04 (342)

1999-10-11 17:10:04# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að lífið er ekki þannig að það sé skipulagt samkvæmt uppskriftabókmenntum frjálshyggjumanna, að ef menn létti af öllum hömlum í þjóðfélaginu þá blómstri hér frjáls markaður þar sem allir uni sælir við sitt.

Staðreyndin er sú að á markaði vill það gerast að völdin og fjármagnið færast saman og vilja safnast á fáar hendur. Af því hafa menn áhyggjur, jafnt markaðssinnar sem aðrir. Þess vegna er fram komið frv. til laga sem nú er til umræðu. Reyndar erum við ekki, eins og ég sagði, einir um þá skoðun, hún hefur verið viðruð af öðrum aðilum og mjög ákveðið af hálfu hæstv. forsrh. nú í sumar, eins og 1. flm. frv., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, gat um í framsöguræðu sinni. Hann gat einnig um það að af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur verið mjög eindregin andstaða gegn því að selja ríkisbankana. Við höfum talið það þjóna hagsmunum þjóðarinnar betur að halda þeim í þjóðareign, huga að sameiningu ríkisbankanna og stofna hér öflugan banka.

Þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum fyrir fáeinum missirum, það mun hafa verið árið 1997, talaði ríkisstjórnin á mjög varfærnum nótum. Hæstv. ráðherrar, þar með talinn bankamálaráðherrann, sögðu að menn yrðu að fara mjög varlega í sakirnar. Á þeim tíma var mikill andbyr gegn slíkum áformum og það var ráðherrans hæstv. að sigla gegn þeim mótbyr og málinu í höfn með því að tala varlega. Það yrði séð til þess, sagði ráðherrann, að ef svo færi að bankarnir yrðu seldir þá mundu þeir hafna hjá ábyrgum aðilum. Hann skírskotaði til almannasamtaka, verkalýðshreyfinga, bændasamtaka, lífeyrissjóða og þar fram eftir götunum. Úr munni hæstv. bankamálaráðherra hafa komið önnur sjónarmið á undanförnum vikum og mánuðum, því miður. En á þeim tíma var þetta viðurkenning á því sjónarmiði að það skipti máli hver færi með eignarhald og völd yfir fjármálastofnunum þjóðarinnar. Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ríkisstjórnin er eins áköf að selja bankana og raun ber vitni. Þetta þjónar vissulega fjárfestum á markaði, þeir vilja gjarnan komast yfir þær mikilvægu eignir, þær gefa góðan arð og veita fyrirgreiðslu sem getur skipt þá máli. Á hinum agnarsmáa íslenska markaði kann slíkt hins vegar að orka tvímælis. Til dæmis ef ráðandi hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins fengju aðilar sem eru þátttakendur á sama markaði og bankinn á að þjóna. Þetta held ég að hljóti að orka mjög tvímælis og hljóta allir að vera sammála um það, hvort sem þeir eru fylgjandi óheftum markaði eða vilja setja á hann einhverjar hömlur.

Ég held hins vegar að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin vill áköf selja bankana sé pólitísk í eðli sínu. Menn trúa því einfaldlega að þeir verði að gera þetta. Þetta tilheyri komandi öld. Við heyrðum menn kveða upp stóra dóma áðan, hv. þm. Pétur Blöndal hafði hér uppi stór orð um bankana fyrr á tíð, sagði að þeir hefðu haldið hryllilega á málum. Þetta er ekkert nýtt að menn sæki sér röksemdir til fyrri tíma og telja allt illt sem þá hafi gerst. Vissulega er það rétt að ríkisbankarnir veittu oft lánafyrirgreiðslu í byggðarlögum sem áttu undir högg að sækja.

[17:15]

Ég leyfi mér að fullyrða að í sumum tilvikum hafi slík lánafyrirgreiðsla verið ábyrg en ekki óábyrg ef hún þjónaði byggðarlaginu og bjargaði og treysti atvinnuöryggi fólksins sem þar bjó. Ég vara við sleggjudómum og stórudómum af þessu tagi. Ég bið menn að hugleiða annað og þegar fulltrúar ábyrgðarkenndarinnar stíga á stokk, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, bið ég menn að gaumgæfa hvaða hagsmunum hann hefur helst talað fyrir.

Vissulega er rétt að hér fyrr á tíð voru vextir neikvæðir langtímum saman. Sparifé landsmanna, sem átti að geyma og vera öruggt í hirslum bankann, rýrnaði og ekki ætla ég að mæla því bót. En hvað hefur tekið við? Hvað er þetta ábyrga kerfi sem hefur tekið við sem gerir ekki það eitt að tryggja verðgildi sparifjárins heldur að skila eigendum þess stórfelldum arði, svo miklum að atvinnulíf á Vesturlöndum hefur iðulega riðað til falls. Einfaldlega vegna þess að svo miklir fjármunir hafa verið fluttir frá atvinnurekstrinum og frá heimilinum yfir til þeirra sem hafa fjármagnið á hendi. Geysilegir fjármagnsflutningar. Það er þetta sem hv. þm. Pétur H. Blöndal á væntanlega við þegar hann er að tala um bankana sem þjónustustofnanir. Vissulega er rétt að þær hafa í seinni tíð þjónað þessum aðilum. Þegar það gerist að fjármálastofnanirnar taka til sín á milli 5 og 10% í raun\-ávöxtun, vexti umfram verðbólgu, er að mínum dómi hætta á ferðum. Ég held að við höfum gengið of langt í seinni tíð í því að mæra markaðshyggjuna. Við gengum svo langt í því gagnvart lífeyrissjóðunum á síðasta kjörtímabili að við settum lífeyrissjóðum í landinu þá lagaskyldu að þeim væri óheimilt að ráðstafa fjármunum á annan hátt en þann að þeir skiluðu hámarksávöxtun. Hvað þýðir þetta?

Fyrir nokkrum áratugum voru lög í landinu sem bönnuðu okur. Nú er bannað að okra ekki. Það er bannað að láta skynsemi og sanngirni stundum ráða för ef hún stríðir gegn gróðahyggju. Mér finnst þarna hafa verið stigið vafasamt spor. Eins verð ég að segja að mér finnst það vera vafasamur hlutur þegar við erum að dæma, kveða upp stóra dóma yfir ríkisbönkunum og lánastofnunum þjóðarinnar og segja allt illt sem framkvæmt hefur verið fyrri á tíð.

Herra forseti. Þetta er formálinn. Ég vil leggja á það áherslu og það er mikilvægt að enginn velkist í vafa um það að afstaða okkar er sú að það eigi ekki að selja þessa banka. Við erum hins vegar í minni hluta í þinginu og fáum ekki miklu um það ráðið. Það stendur til að selja þessar fjármálastofnanir þjóðarinnar. Þá viljum við leggja það af mörkum að staðið sé eins skynsamlega að því og kostur er. Reynar hefur komið fram að allir virðast vera á þessu máli. Ég endurtek, hæstv. forsrh. hamraði á þessu í fjölmiðlum í allt sumar og hér fyrr á tíð þótt hæstv. bankamálaráðherra hafi sveigt af för á seinni missirum þá talaði hann einnig í þá veru. Allir virðast vilja gera þetta. Þá er spurningin bara þessi, hvernig ráðumst við í það verk? Það er tæknilegt úrlausnarefni. Við höfum lagt fram tillögu hvernig unnt sé að standa að því máli.

Við höfum lagt fram frv. sem gerir ráð fyrir breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði þar sem sett yrði inn eftirfarandi klásúla, með leyfi forseta:

,,Einstökum aðilum, öðrum en ríkissjóði, og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum er óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka.``

Síðan er í lagagreininni frekari útlistun á því hvernig skuli að þessu staðið. Ætla ég ekki að eyða tíma mínum eða annarra í að endurtaka það, menn hafa gert rækilega grein fyrir því hér og þá sérstaklega hv. 1. flm. frv., Steingrímur J. Sigfússon.

Í grg. með frv. vísum við til þess ásetnings ríkisstjórnarinnar að tryggja dreifða eignaraðild og vísum þar til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins en í grg. með frv. á þeim tíma var sérstaklega vikið að þessu. Augljóst er að það þurfa að koma til lagaákvæði sem takmarka varanlega hámarkseign einstakra aðila sambærileg þeim sem þekkt eru víða erlendis og þekkt eru bæði í innlendum og erlendum lögum í ýmsum annars konar tilvikum.

Í grg. okkar með frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Má þar sem dæmi nefna þær takmarkanir sem eru á hámarkseign erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, sérstaklega í sjávarútvegi. Einnig mætti nefna þær breytingar sem gerðar voru nýlega á lögum um stjórn fiskveiða til að sporna við samþjöppun á eignarhaldi veiðiheimilda. Þau lög fela í sér takmörkun á hámarkseign einstakra fyrirtækja eða tengdra aðila í veiðiheimildum í einstökum tegundum og í heild. Í ýmsum nálægum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við eru takmarkanir hvað varðar hámarkseign einstakra aðila í fjármálastofnunum og reyndar ýmsum öðrum greinum, svo sem í fjölmiðlum, vel þekktar.``

Síðan bendum við á að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi taki af skarið í þessu máli og láti á það reyna hvaða innstæður eru fyrir fullyrðingum um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild og sporna við samþjöppun á eignarhaldi í mikilvægum innlendum fjármálastofnunum. Viðbúið er að um setningu slíkra reglna geti orðið pólitískar deilur en því verður varla á móti mælt að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að fara varlega í þessum efnum. Síðan segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Slíkar takmarkanir eða reglur er alltaf hægt að rýmka síðar meir ef áhyggjur af samþjöppun og fákeppni reynast ástæðulausar. Varla getur sakað að hafa vaðið fyrir neðan sig. Eins kæmi til greina að skoða rýmri mörk hvað hámarkseign í fjármálastofnun snertir þegar í hlut eiga viðskiptabankar, sparisjóðir eða aðrar lánastofnanir. Gæti það einkum átt við ef bankar eða aðrar lánastofnanir vildu starfrækja þjónustufyrirtæki á fjármálasviði sem hefði starfsleyfi sem lánastofnun. Þær reglur sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru einfaldar en að mati flutningsmanna fullnægjandi til að setja hámarkshlutafjáreign og ítökum einstakra aðila í viðskiptabönkum og öðrum mikilvægum lánastofnunum takmörk.``

Hér var ég, herra forseti, að lesa úr greinargerð með frv. En ég vil láta þess getið að í umræðu um þessi mál sem fram hefur farið í efh.- og viðskn. þingsins, reyndar um annað en tengt efni, söluna á hlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og þær reglur sem ríkisstjórnin vildi við hafa við söluna á honum, kom fram ákveðin nauðhyggja í máli ýmissa sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar. Þeir sáu öll tormerki á því að gera þetta, erfitt yrði að höndla þetta á eftirmarkaði og þar fram eftir götum. Ég vil vara við nauðhyggju af þessu tagi. Mér finnst þetta vera uppgjöf lýðræðisins fyrir markaðnum ef menn gefast alltaf upp eftir fyrsta leik og láta alltaf sannfærast um að almenningur eigi aldrei nein tök á að bregðast við því sem hugsanlega gerist á markaðnum. Það er engu líkara en að hann sé orðinn heilagur, bara heilög ritning, og þar megi engu við hrófla. Ég vara við þeirri nauðhyggju sem rekur menn áfram og hefur því miður sett um of svip á umræðuna í sumar. Ég minnist þess t.d. í viðbrögðunum við yfirlýsingum hæstv. forsrh. í sumar þegar hann vildi setja lög um að tryggja dreifða eignaraðild eða leita ráða til þess varð þessara sjónarmiða mjög vart víða. Það kom fram í máli ýmissa ráðherra í ríkisstjórninni og einnig í fjölmiðlum og hjá fulltrúum sem eiga sæti í þessum sal.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra. Það er spurt um hv. þm. Sighvat Björgvinsson og er þar sennilega verið að ýja að því að hann hafi verið haldinn þeirri nauðhyggju sem ég vék að áðan, mig rekur ekki minni til hvað það var sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í þessari umræðu annað en það náttúrlega að hann var einn af áköfustu stuðningsmönnum þess að bankarnir yrðu seldir, yrðu einkavæddir. Ég man ekki betur en það að það væru hv. þm. Ágúst Einarsson, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og gott ef ekki var hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem að lögðu fram tillögu á sínum tíma um að bankarnir yrðu seldir. Á þeim tíma vildu þeir dreifða eignaraðild. Það var nokkuð í tísku á þeim tíma að tala um hana og skírskota til Jeltsíns Rússlandsforseta sem var frægur forgöngumaður í einkavæðingu í heimalandi sínu en ég sakna þess sannast sagna, herra forseti, að hér skuli ekki vera fleiri alþýðuflokksmenn, núverandi samfylkingarmenn, til að taka þátt í umræðunni. Við erum að ræða mjög mikilvægt málefni og við höfum heyrt það frá hendi stjórnarþingmanna að þeir vilja taka þetta frv. alvarlega og þetta fær greinilega allgóðar undirtektir. Ég lýsi eftir því að við heyrum það frá sem flestum pólitískum fylkingum hér á þinginu á hvern hátt þær vilja taka á þessum málum.