Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:28:43 (343)

1999-10-11 17:28:43# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur um margt farið fram ágæt umræða og um það frv. sem að hv. síðasti ræðumaður er meðflutningsmaður að. Það eru kannski nokkur atriði sem valda mér a.m.k. hugarangri og ég átta mig ekki nægilega vel á. Ég hefði viljað beina spurningum til hv. þm. sem flutti síðustu ræðu.

Í fyrsta lagi er það, virðulegi forseti, að ég vil nú fullyrða að dreifð eignaraðild ein út af fyrir sig tryggir ekki samkeppni á þessu sviði. Við skulum ekkert vera að velkjast í vafa um að dreifð eignaraðild sem slík kemur ekki í veg fyrir fákeppni. Við lestur grg. með frv. fæ ég ekki séð að það hafi heldur verið markmiðið. Markmiðið sem slíkt er dreifð eignaraðild í sjálfu sér, þ.e., dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum. Það er það sem að er stefnt í þessu frv. Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. Ögmundar Jónassonar hvort hann líti á viðskiptabanka, því frv. takmarkast við viðskiptabanka, ekki almennt við fjármálastofnanir og ekki sparisjóði, heldur viðskiptabanka, ef ég skil þetta rétt. Lítur hann þá á viðskiptabanka sem valdastofnanir miklu frekar en þjónustustofnanir? Mér þætti fróðlegt að fá fram hvert viðhorf hans er í þeim efnum.

[17:30]

Enn fremur vil ég spyrja hvort hættan með frv. af þessum toga --- ég vil taka fram að ég er mjög fylgjandi því að menn nái því markmiði að tryggja hér sem öflugasta samkeppni hvort sem gert verður með þessum hætti eða öðrum --- verði ekki sú að ráðandi hlutur í þessum fyrirtækjum byggist á færri stigum í prósentum talið en ella. Við höfum sem dæmi óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, þar sem ráðandi hlutur er kannski miklu minni en 50%. Það er einkum um þessi atriði sem mér þætti vænt um að heyra frá hv. þm.