Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:54:27 (348)

1999-10-11 17:54:27# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að fá svar við því hvort hæstv. forsrh. hafi í bígerð frv. af því tagi sem hér hefur verið lagt fram, og ef svo er ekki, hvers vegna það hafi ekki orðið til. Mig langar til þess að geta áttað mig á því hvort hæstv. forsrh. sé í einhvers konar minni hluta í ríkisstjórninni, hvort hann fái ekki sínum sjónarmiðum framgengt þar og hvort hann sjái sér helst hald í því að leita nú á náðir stjórnarandstöðu til þess að koma málum sínum fram. Mig langar til þess að vita hvort ríkisstjórnin hafi ekki eina skoðun í þessu máli. Og mig langar afskaplega mikið til þess að vita hvernig hæstv. forsrh. sjái fyrir sér framhaldið ef þetta frv. verður ekki að lögum vegna þess að það sem ríkisstjórnin er búin að gera í þessu máli tryggir svo sannarlega ekki dreifða eignaraðild að bönkum. Það er einungis tryggt að selt verði með einhverjum tilteknum hætti en ekki að það verði neitt hægt að hafa áhrif á framhaldið.

Þess vegna spyr ég: Er hæstv. forsrh. að segja okkur með ræðu sinni hérna að hann ráði ekki lengur ferðinni? Ég hef mikinn áhuga á því, hæstv. forseti, að fá svör við þessum spurningum núna.