Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:05:29 (354)

1999-10-11 18:05:29# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:05]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að það hefur verið ólíkt meiri samhljómur í ræðum Samfylkingarinnar í þessu máli en birtist núna á haustdögum í máli hæstvirtra ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Þó virðist niðurstaðan sú að hæstv. forsrh. hafi að einhverju leyti orðið undir.

Ég skil þá hæstv. forsrh. svo að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að þessi samþjöppun hafi átt sér stað og af þeirri ástæðu hafi hann ekki brugðist við á nokkurn hátt. Hann áttaði sig ekki á því að þessi samþjöppun hefði átt sér stað þrátt fyrir, virðulegi forseti, að þessi umræða hafi verið veruleg í fjölmiðlum almennt, m.a. í kjölfar svonefndra kennitöluviðskipta. Kennitöluviðskipti voru almennt í mikilli umræðu og m.a. í þessari stofnun. Hæstv. forsrh. hafði ekki áttað sig á því að þessi samþjöppun á eignarhaldi hafi átt sér stað. Hann kveðst ekki hafa áttað sig á því fyrr en við þessa sölu.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta kemur mér verulega á óvart en það var nokkuð gott að hæstv. forsrh. skyldi skýra þessi viðhorf sín með þessum hætti.