Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:59:13 (365)

1999-10-11 18:59:13# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:59]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að starfsmenn eftirlitsstofnananna í Bretlandi séu ánægðir með sinn hlut og sitt hlutverk en ég ætla ekki að gera lítið úr skoðunum ráðherrans eða upplýsingum. Ég er einvörðungu að leggja áherslu á að við erum að leggja til að menn setjist yfir upplýsingar af þessu tagi.

Aðeins varðandi fullyrðingu hæstv. forsrh. að einkavæðing hafi almennt verið gerð í góðri sátt við starfsmenn. Þetta leyfi ég mér að fullyrða að er rangt. Þetta var ekki gert í sátt og samlyndi við starfsmenn símans og póstsins eða bankanna. Hitt er annað mál að þegar menn stóðu frammi fyrir því að þessar stofnanir yrðu einkavæddar var reynt að ná einhvers konar samkomulagi eins og bankamenn gerðu t.d. varðandi lífeyrismál sín. En bankamenn eru aldeilis ekki ánægðir með þá stefnu sem þessi mál hafa tekið.

Ekki er langt síðan ég hlustaði á formann Sambands ísl. bankamanna lýsa miklum áhyggjum yfir því sem væri að gerast innan bankanna þar sem verið væri að úthýsa fólki úr stéttarfélögum eins og hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þar lætur hæstv. bankamálaráðherra það algerlega óátalið þótt stjórnendur stofnunnar séu að ýta starfsmönnum út úr stéttarfélögum sínum. Ég vísa því algerlega á bug að þessi stefna sé framkvæmd í sátt og samlyndi við starfsmenn. Það á alls ekki við um bankana. Hitt er annað mál að þegar þeir stóðu frammi fyrir gerðum hlut reyndu þeir að ná samkomulagi um réttindi sín og þá ekki síst um lífeyrismálin. Það var á þeim forsendum að þeir stóðu nánast frammi fyrir gerðum hlut.