Meðferð einkamála

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:37:42 (368)

1999-10-12 13:37:42# 125. lþ. 7.4 fundur 64. mál: #A meðferð einkamála# (EES-reglur, málskostnaðartrygging) frv. 97/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála. Með frv. er lögð til breyting á reglum laganna um málskostnaðartryggingu. Við samningu þess var haft samráð við réttarfarsnefnd.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 133. gr. laganna getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef hann er búsettur erlendis og menn sem eru búsettir hér á landi eru ekki undanþegnir því að setja slíka tryggingu í heimalandi hans. Í erindi Eftirlitsstofnunar EFTA til íslenskra stjórnvalda er því haldið fram að þetta ákvæði geri stöðu aðila, sem höfðar mál hér á landi og er búsettur utan Íslands, lakari en þeirra sem búsettir eru hér á landi. Stofnunin telur því að ákvæðið samrýmist ekki 4. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Til stuðnings þessu áliti stofnunarinnar er unnt að benda á dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.

Til að taka af allan vafa um að íslensk réttarfarslög séu ekki í ósamræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að þessu leyti er lögð til sú breyting á a-lið 1. mgr. 133. gr. laganna að ákvæðið taki ekki til þeirra sem höfða mál hér á landi og búsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftir sem áður mun reglan samt eiga óbreytt við um þá sem búsettir eru utan efnahagssvæðisins og höfða mál fyrir íslenskum dómstólum.

Herra forseti. Ég hef rakið efnisatriði þessa frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. allshn.