Skráð trúfélög

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:48:12 (373)

1999-10-12 13:48:12# 125. lþ. 7.8 fundur 69. mál: #A skráð trúfélög# (heildarlög) frv. 108/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skráð trúfélög. Frv. þetta er samið af nefnd sem dóms- og kirkjumrh. skipaði 2. okt. 1997. Í nefndinni áttu sæti Davíð Þór Björgvinsson, prófessor í lögfræði, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Haraldur Ólafsson, prófessor í mannfræði, og Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði.

Með stjórnarskránni frá árinu 1874 var fullt trúfrelsi lögleitt hér á landi og síðan hafa þau mannréttindi verið varin af ákvæðum hennar. Í lögum um trúfélög hefur nánar verið kveðið á um inntak trúfrelsisins og stoðum skotið undir starfsemi trúfélaga í landinu. Lög um trúfélög tryggja skráðum trúfélögum ákveðin réttindi og má í þeim efnum nefna að forstöðumenn skráðra trúfélaga geta m.a. annast hjónavígslur. Einnig gefa forstöðumenn skráðra trúfélaga út fullgild embættisvottorð um þau embættisverk sem þeir hafa unnið.

Frv. það sem ég mæli fyrir felur í sér heildarendurskoðun gildandi laga um trúfélög, nr. 18/1975. Við þá endurskoðun var sérstaklega hugað að því að lagareglur um trúfélög væru skýrari og að lögin væru í sem bestu samræmi við trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar en þau voru nýlega endurskoðuð með stjórnarskipunarlögum frá árinu 1995.

Með frv. fylgir ítarleg greinargerð sem fengur er að en þar er rakin þróun ákvæða stjórnarskrárinnar um trúfrelsi og laga um trúfélög. Í greinargerðinni eru einnig rakin hliðstæð ákvæði í dönskum og norskum lögum.

Herra forseti. Ég mun nú í helstu atriðum gera grein fyrir þeim nýmælum sem lögð eru til með frv.

Framsetning frv. er með nokkuð öðrum hætti en í gildandi lögum. Í I. kafla frv. eru aðeins settar fram meginreglur um trúfrelsi og ekki lagt til að önnur ákvæði verði í lögunum sem taki til trúfélaga sem ekki sækjast eftir skráningu. Miðað er við að um slík félög gildi sömu reglur og gilda endranær um félög og félagasamtök, hvort sem þau tengjast átrúnaði eða ekki.

Í II. kafla frv. er síðan að finna ákvæði sem eingöngu gilda um skráð trúfélög en sá kafli hefur að geyma meginefni frv. Í 3. gr. frv. er lagt til að lögfest verði almenn skilyrði sem félag verður að fullnægja til að það verði skráð sem trúfélag. Þessi skilyrði eru að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur. Enn fremur að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðkar trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi.

Þessi skilyrði eru væntanlega í flestum atriðum talin eiga við samkvæmt gildandi lögum en rétt þykir að kveða skýrar og afdráttarlausar á um þau í lögum.

Samkvæmt 17. gr. gildandi laga um trúfélög verður prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags að fullnægja almennum hæfiskilyrðum til að gegna opinberu starfi, þar með talið að vera íslenskur ríkisborgari.

Þessi áskilnaður þykir ástæðulaus og því er lagt til í 7. gr. frv. að fallið verði frá skilyrði um ríkisborgararétt. Einnig er lagt til að fallið verði frá skilyrði um ríkisborgararétt eða búsetu hér á landi til að geta átt aðild að skráðu trúfélagi.

Þá er í 5. gr. frv. lagt til að skýrt verði kveðið á um upplýsingagjöf til ráðuneytisins um ráðstöfun fjármuna trúfélags, en hér eru einkum höfð í huga sóknargjöld sem renna til trúfélaga samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987.

Herra forseti. Ég hef nú rakið helstu nýmæli sem lögð eru til með frv. en aðrar breytingar sem lagðar eru til frá gildandi lögum eru aðeins að litlu leyti efnislegar og um þær vísa ég til frv. Að svo búnu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.