Skráð trúfélög

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:53:03 (374)

1999-10-12 13:53:03# 125. lþ. 7.8 fundur 69. mál: #A skráð trúfélög# (heildarlög) frv. 108/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ekki leikur nokkur vafi á að þetta frv. á fullan rétt á sér til umfjöllunar og í þeim anda að hér séu trúfélög en að þeim séu sett þau skilyrði að þau aðlagi sig að íslensku þjóðlífi. Mér þykir eðlilegt að þeir sem setjast hér að og hafa aðra trú en þá sem hér hefur viðgengist um áratugi aðlagi sig að íslensku þjóðlífi.

Því koma upp í huga minn nokkrar spurningar sem ég vildi beina til hæstv. dómsmrh. Í 2. mgr. 3. gr., segir, með leyfi forseta, um almenn skilyrði til skráningar:

,,Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðkar trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld.``

Gæti hugsanlega sú staða komið upp til að lögin nái til þeirra aðila sem vilja stunda sína trú í virkni og stöðugleika að það gæti haft áhrif t.d. á skólahald? Gæti það gerst að ákveðnir trúarflokkar sem þyrftu að iðka trú sína á miðjum skóladegi gætu haft þau áhrif að leggja yrði af kennslustund um tíma til að þeir ákveðnu hópar gætu stundað trúarbrögð sín í krafti þess sem talað er um í lögunum til að þau fái viðurkenningu?

Í annan stað langar mig til að spyrja hæstv. dómsmrh. hvers vegna sú leið hafi verið farin, eins og getið er um í 7. gr., að forstöðumenn skráðra trúfélaga þurfi hvorki að hafa ríkisborgararétt né eiga lögheimili á Íslandi. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að svo sé ekki.

Í 4. gr., f. lið, segir einnig, með leyfi forseta:

,,starfsemi félagsins, svo sem reglulegt samkomuhald eða annað sem gefur til kynna að starfsemi þess sé stöðug og virk.``

Eins og ég kom að áðan þykir mér texti frv. í nokkrum tilfellum kalla á fleiri spurningar en hér er hægt að lesa svörin við. Þess vegna taldi ég rétt að beina þessum spurningum til hæstv. dómsmrh. og jafnframt að sú virðulega nefnd sem fær frv. til skoðunar athugi nokkuð um þá þætti sem hér hefur verið bent á.