Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 14:47:56 (388)

1999-10-12 14:47:56# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekkert í efa að hæstv. dómsmrh. skilur alveg hvernig í málinu liggur enda hefur hún komið að þessum málum bæði á sviði ríkisins og líka á meðan hún tók þátt í störfum borgarstjórnar á vettvangi borgarstjórnar í Reykjavík.

En, herra forseti, mér finnast þessi svör ekki nægilega góð. Ég held að í þessum sölum hafi komið fram á síðustu árum að það er yfirgnæfandi stuðningur í öllum flokkum, kannski er það of sterkt til orða tekið, herra forseti. En það er meirihlutastuðningur í öllum þingflokkum sem eru nú á Alþingi við því að samkynhneigðir fái að stjúpættleiða. Það hefur komið fram í umræðum á þinginu og það hefur einfaldlega komið fram þegar einstakir þingmenn hafa verið að lýsa viðhorfum sínum til málsins. Þess vegna sé ég ekki neitt sem mælir gegn því að það tiltekna atriði verði afgreitt sem fyrst. Sér í lagi þegar hæstv. dómsmrh. tekur undir þá skoðun mína að greina beri á milli stjúpættleiðinga og frumættleiðinga.

Í annan stað, herra forseti, er auðvitað ekki boðlegt, hversu mikil sem ást mín og hæstv. dómsmrh. og eftir atvikum ríkisstjórnarinnar allrar er á hinni sænsku sósíaldemókratíu, að bjóða Alþingi upp á að það sé ekki hægt að afgreiða mál eins og þetta vegna þess að beðið sé eftir niðurstöðum sænskra rannsókna. Hæstv. dómsmrh. hefur örugglega kynnt sér málið vel og hlýtur að vita eins og ég rakti hérna áðan að það liggja fyrir niðurstöður tuga rannsókna sem allar sýna að því er ég best veit að samkynhneigðir eru ef eitthvað er ívið betri foreldri en við hin og börn sem eru alin upp hjá samkynhneigðum eru ef eitthvað er ívið ,,betur heppnuð`` en börn hinna. Það eru því engin rök sem mæla gegn þessu tiltekna atriði. Ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmrh.: Verður það vinnuaðferð hennar í framtíðinni þegar erfið mál koma upp að skjóta þeim til sósíaldemókrataflokks Svíþjóðar?