Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:10:26 (394)

1999-10-12 15:10:26# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Á níunda áratugnum var eins og margir muna vandi sjávarútvegsins fólginn í því að of mörgum skipum var haldið til veiða miðað við afrakstursgetu fiskstofna. Þegar aflamarkskerfið með framseljanlegum aflaheimildum var tekið upp í fiskveiðum var talið að það væri vænlegasta kerfi til þess að skapa þá umgerð sem leiðir til hagkvæmustu stærðar og samsetningar flotans. Það átti að gerast með því að veiðiheimildir fiskiskipa yrðu sameinaðar á færri skip. Rekstri einhverra fiskiskipa yrði hætt og rekstur þeirra skipa sem eftir yrðu í flotanum yrði hagkvæmari vegna betri nýtingar á framleiðslutækjunum. Hagræðing og hagkvæmni voru þannig lykilorðin.

Þegar horft er yfir tímabilið sést að þessar vonir hafa ræst. Afkoma í sjávarútvegi var fremur léleg mest allan níunda áratuginn og var tap á rekstrinum öll árin nema 1986--1987. Umsnúningur varð á árinu 1990 og hafa fiskveiðarnar verið reknar með hagnaði síðan þá. Þess sjást víða merki að tilkostnaður við veiðar fiskiskipanna hafi minnkað og arðsemi hefur aukist verulega eftir að aflamarkskerfið varð allsráðandi.

Nokkur stærstu útgerðarfyrirtækin hafa stækkað umtalsvert. Í fyrsta lagi hafa þau keypt til sín aflahlutdeild frá öðrum útgerðum. Í öðru lagi hafa þau sameinast útgerðarfyrirtækjum sem stunduðu veiðar úr sömu fiskstofnum. Í þriðja lagi hafa þau sameinast útgerðum sem hafa stundað veiðar á öðrum fiskstofnum og með því lagt breiðari grunn undir rekstur fyrirtækis síns.

Síðast en ekki síst hafa mörg stærstu fyrirtækin skráð félög sín á Verðbréfaþingi Íslands. Tuttugu sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð þar nú og eru þau álitin eftirsóknarverður fjárfestingarkostur á þeim markaði.

Nokkur umræða hefur átt sér stað í gegnum tíðina um það hvort frjálst framsal á aflahlutdeild mundi leiða til færri og stærri útgerðarfyrirtækja. Of mikil samþjöppun var af mörgum talin óheppileg þar sem hún gæti leitt til þess að sífellt færri aðilar hefðu nýtingarrétt á fiskstofnum landsmanna. Af því tilefni ákvað Alþingi á árinu 1998 að breyta lögum um stjórn fiskveiða og setja inn í lögin ákvæði sem ætlað er að girða fyrir of mikla samþjöppun og koma í veg fyrir að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila geti farið umfram tiltekið hámark.

Í stuttu og einfölduðu máli eru reglurnar þær að þak er sett á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa sem einstaklingar, fyrirtæki eða tengdir aðilar ráða yfir. Þannig er þakið 10% í ýsu og þorski en 20% í ufsa, karfa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju. Þakinu er ætlað að koma í veg fyrir að einstakir aðilar verði of ráðandi í veiðum á einstökum tegundum án þess að skerða möguleika þeirra til hagræðingar og sérhæfingar. Þá má heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda sem sæta ákvörðun um hámarksafla ekki fara fram úr 8%. Þakið er hærra, eða 12%, ef eignaraðild í fyrirtækinu er dreifð og engar hömlur eru á viðskiptum með eignarhluti.

Við mat á því hvort hámarki aflahlutdeildar er náð eru aflahlutdeildir fiskiskipa í eigu aðila sem teljast tengdir, lagðar saman. Um það hverjir teljast tengdir aðilar gilda flóknar reglur. Grundvallaratriðið er hvort einhver aðili hefur raunveruleg yfirráð yfir öðrum svo sem vegna þess að hann eða dótturfyrirtæki hans á meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, fer með meiri hluta atkvæðisréttar eða hefur sambærileg ítök. Þá geta fyrirtæki talist tengd ef sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða fara með meiri hluta atkvæða í stjórnum fyrirtækjanna.

Fiskistofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Að hennar mati hefur enginn aðili enn þá náð þeirri stærð að ákvæði 11. gr. laga um stjórn fiskveiða taki til hans.

Í upphafi nýhafins fiskveiðiárs höfðu tíu stærstu útgerðarfyrirtækin ráðstöfunarrétt á samtals 36,7% úthlutaðra þorskígilda. Hlutur þeirra hafði aukist um 2,5% frá 1. desember sl. Samherji hafði flest, 6,75%. Hvað varðar einstakar tegundir var engin útgerð með hærri ráðstöfunarrétt en heimildir leyfa. Aflahlutdeildarþaki var heldur ekki náð þó tillit væri tekið til reglna um tengda aðila.

Á undanförnum árum hafa stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja leitað leiða til að skapa skilyrði fyrir bætt rekstraröryggi og svara kröfu þjóðfélagsins um aukna hagkvæmni í sjávarútvegi. Það hafa þeir m.a. gert með sameiningu fyrirtækja. Tilgangur þeirra er að dreifa áhættu í rekstri og renna fleiri stoðum undir starfsemina. Þá hafa stjórnendur fyrirtækja séð sér hag í því að sameina fyrirtæki til að standa betur að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Að lokum má nefna að rekstrarskilyrði stærri sjávarútvegsfyrirtækja eru almennt jafnari.

Það er ljóst að það er flókið verkefni að finna jafnvægi milli þess að leyfa hagkvæmni stærðarinnar að njóta sín og að setja á sama tíma reglur til að reyna að koma í veg fyrir ýmsa ókosti sem geta fylgt of mikilli samþjöppun í útgerð. Þessum lögum var ætlað að skapa þetta jafnvægi.

[15:15]

Spurt var hvernig mér litist á þessa þróun. Mér líst vel á þá þróun sem leiðir til hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi. Spurt var hvort uppi væru fyrirætlanir um að bregðast sérstaklega við þessari þróun. Það eru ekki uppi áætlanir um það þar sem þeim mörkum sem Alþingi sjálft ákvað árið 1998 hefur ekki enn verið náð.