Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:18:41 (396)

1999-10-12 15:18:41# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er óumdeilt að það er á ábyrgð stjórnvalda hvernig mál þróast í viðamiklum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi. Þau setja leikreglurnar og þeim ber því að bregðast við ef þær leiða til þróunar sem er óásættanleg.

Eitt af því sem menn þurfa að hafa auga með varðandi löggjöf um stjórn fiskveiða eru afleiðingar af hinu frjálsa framsali. Á það hefur verið bent að atvinnuhagsmunir margra sjávarbyggðarlaga komast í uppnám ef fyrirtæki eru flutt af viðkomandi stað eða aflaheimildir þess.

Þegar við framsóknarmenn gengum til síðustu alþingiskosninga, bentum á þennan vankant á kvótakerfinu og sögðum að breytinga væri þörf. Við gerðum kröfu til þess að lögin yrðu tekin til endurskoðunar. Nú hefur verið skipuð nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lögin með hagsmuni byggðanna og almennings í huga. Það er auðvitað óásættanlegt að fáeinir aðilar geti með framsali aflaheimilda haft svo mikil áhrif á lífsafkomu svo margra sem starfa í sjávarútvegi eins og raun ber vitni, bæði með því að flytja atvinnuna í burtu og fella verðgildi eigna fólksins. Þess vegna þurfa stjórnvöld að fylgjast með þróun sem kann að leiða þetta af sér.

Að mínu viti er algerlega óásættanlegt að menn horfi upp á þróun af þessu tagi án þess að stjórnvöld bregðist við. Ég tel að ríkisstjórnin eigi að senda mjög ákveðin skilaboð til aðila, ef þeir eru fyrir hendi, sem hyggjast safna saman aflaheimildum af mörgum stöðum á einn stað. Ég tel að það sé óásættanlegt fyrirkomulag og að ríkisstjórninni beri að senda mjög ákveðin skilaboð til þeirra nú þegar um að slík þróun verði ekki liðin.