Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:23:23 (398)

1999-10-12 15:23:23# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er fullt tilefni til að ræða hér samþjöppun í sjávarútvegi í formi eignarhalds á fyrirtækjum. Lögin sem hér er vitnað til eru þó sett til að takmarka samþjöppun veiðiheimilda en ekki stærð fyrirtækja, sem geta t.d. verið umsvifamikil í fiskvinnslu án þess að það brjóti í bága við þau ákvæði laganna um stjórn fiskveiða sem hér er vitnað til.

Við stöndum þar af leiðandi frammi fyrir því að þeim lagaákvæðum sé áfátt, þau þurfi að styrkja ef vilji manna stendur óbreyttur til þess að hindra óeðlilega samþjöppun sem ég tel að hafi verið þegar þau voru sett fyrir tveimur árum.

Ég vek athygli á því sem ekki er síður umhugsunarefni, herra forseti, þeim breytingum sem eru að verða á samsetningu flotans og eðli útgerðarinnar í tengslum við þessar breytingar, færslu veiðiheimilda til nokkurra af stærstu fyrirtækjunum í landinu sem að langmestu leyti nýta þær til útgerðar á vinnsluskipum. Það gengur á bátaútgerðina, einkum útgerð skipa af millistærð og hlutfallslega minna hráefni kemur ferskt til vinnslu í landi. Þessar breytingar eru ekki síður afdrifaríkar þegar kemur að stöðu byggðarlaganna og atvinnuöryggi fiskverkafólks.

Ég er þeirrar skoðunar að einn verðmætasti eiginleiki íslensks sjávarútvegs hafi gegnum tíðina verið fjölbreytnin. Ég tel gott að hafa stór og sterk fyrirtæki en það eiga líka að vera fyrirtæki af millistærð og einnig lítil fyrirtæki. Fjölbreytnin hefur aftur og aftur reynst einn verðmætasti eiginleiki sjávarútvegsins þegar komið hefur að því að aðlagast breyttum aðstæðum. Það er m.a. þessi fjölbreytileiki sem nú er að tapast. Fyrirtækin eru að gerast mjög einsleit bæði hvað varðar stærð og útgerðarhætti.

Ég tel, herra forseti, að óumflýjanlegt sé að taka það til alvarlegrar skoðunar að hólfa nú útgerðina upp þannig að bátaútgerðin og grunnslóðarveiðin verði aðskilið lag í sjávarútveginum. Annars hverfur sá hluti úterðarinnar, ef svo heldur fram sem horfir, á allra næstu árum. Það væri stórslys fyrir íslenskan sjávarútveg, herra forseti.