Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:39:15 (405)

1999-10-12 15:39:15# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég bað um að þessi umræða yrði sett á dagskrá vegna þess að mér fannst full ástæða til að við ræddum það hvort verið gæti að þrátt fyrir vilja Alþingis og lagasetningu um hámarksaflahlutdeild einstakra sjávarútvegsfyrirtækja hefði fundist annar farvegur til yfirráða á auðlindinni, yfirráða í miklu stærri mæli en þeim sem einstökum fyrirtækjum leyfist. Herra forseti. Mér hefur ekki fundist að sú umræða færi hér fram. Vissulega hefur hún gert það af hálfu einstakra þingmanna en fleiri hafa kosið að setja málið í annan farveg og í þeirra hópi er því miður hæstv. sjútvrh.

Lögin sem nú gilda taka fyrst og fremst til aðila sem eiga fiskiskip, til fyrirtækja í sjávarútvegi og hversu stór þau mega verða. Þau taka ekki til eignarhaldsfyrirtækja. Þau taka ekki til þess munsturs eða þeirrar reglu sem virðist vera að þróast að fyrirtæki kaupi hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum, þau taka ekki til þess að það gæti verið að gerast, sem menn eru að tala um bæði á fjármálamarkaði og í sjávarútvegi, að hér séu að verða til örfáar stórar fyrirtækjablokkir. Finnst mönnum það í lagi? Þetta er kallað hringamyndun. Er það í lagi í sjávarútvegi? Er það yfirleitt í lagi einhvers staðar?

Það var prýðilega rakið áðan af hálfu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hvernig þessir hlutir hafa gerst í öðrum atvinnugreinum, hvernig hringamyndun hefur átt sér stað. En er það í lagi í sjávarútvegi? Ég segi nei, það er ekki í lagi.

Herra forseti. Þó að þessari umræðu ljúki hér nú, þá er henni ekki lokið af hálfu Samfylkingarinnar.