Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:46:55 (408)

1999-10-12 15:46:55# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að full ástæða sé til að fagna tilurð þessa frv. um ættleiðingar og flest sem til breytinga horfir í því frá gildandi lögum stendur til bóta. Það eru þó örfá atriði sem ég vil drepa á í því samhengi.

Fyrst vil ég ræða ákvæði 2. gr. sem ber yfirskriftina Hverjir geta verið ættleiðendur, og staldra þá fyrst og síðast við 4. mgr. þar sem ,,heimilt er að leyfa einhleypum manni að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta`` --- eins og þar stendur, með leyfi forseta. Hæstv. dómsmrh. kom inn á það í framsöguræðu sinni að þetta ákvæði væri nýmæli og í fyrsta skipti sem gerð væri tillaga um að lögskrá þennan rétt einhleypra, enda þótt að nokkur dæmi væru til um það á liðnum árum og síðustu tímum að heimild hefði verið gefin einhleypum til ættleiðingar. Ég fagna mjög ákveðið því ákvæði og tel það mjög til bóta. Ég velti þó aðeins fyrir mér þeim texta sem hér er að finna og vek athygli á því að þegar um er að ræða heimild til einhleypinga til ættleiðinga þá er samkvæmt frumvarpsins hljóðan nefnt að sérstaklega skuli standa á og ættleiðingin skuli ótvírætt talin barninu til hagsbóta. Þarna er kveðið fastar að orði en í 1., 2. og 3. mgr. þessarar sömu greinar. Þegar maður les hins vegar 4. gr. frv. um hin almennu skilyrði til ættleiðingar þá eru þau auðvitað samhljóða þessari málsgrein því þar stendur, með leyfi forseta:

,,Eigi má veita leyfi til ættleiðingar, nema sýnt þyki eftir könnun viðkomandi barnaverndarnefndar á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra sem óska ættleiðingar að ættleiðing sé barninu fyrir bestu, enda sé ætlun ættleiðenda að annast og ala barnið upp eða sá sem ættleiða á hafi verið alinn upp hjá þeim eða aðrar alveg sérstakar ástæður mæli með ættleiðingu.``

Þarna kemur aftur fyrir ,,alveg sérstakar ástæður`` sem er sama hugtakið og er að finna í 4. mgr. 2. gr. Þess vegna velti ég því hér upp og vil leita svara hjá hæstv. ráðherra hvað í raun þetta þýðir. Við fyrstu sýn mætti ætla að þarna væri með öðrum orðum gerðar alveg sérstakar kröfur þegar um væri að ræða einhleypinga. En þegar maður les hin almennu skilyrði 4. gr. þá eru þær ekki lengur sérstakar, þá eru þær orðnar almennar. Ég vil undirstrika alveg klárlega, herra forseti, að ég er alveg sammála þessum almennu ákvæðum en ég sé ekki ástæðu til að löggjafinn sé að undirstrika einhver sérákvæði til einhleypinga þegar þau sérákvæði eru síðan almenn, eins og fram kemur í 4. gr. Það þætti því eðlilegra að allshn. skoðaði það alveg sérstaklega að engin sérákvæði væru í 2. gr. til handa þeim sem einhleypir væru heldur féllu þau almennt undir hin almennu skilyrði ættleiðingar í 4. gr. Þannig gengjum við hreinlega alla leið og sá sem einhleypur væri og uppfyllti öll þau skilyrði sem lögin að öðru leyti gera kröfu um, hefði sama rétt og þegar um væri að ræða hjón eða karl og konu í óvígðri sambúð.

Þetta vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra færi nokkrum orðum um þannig að okkur væri alveg ljóst hvað þessi orð á blaði og hvað þessi lagatexti í raun þýðir þegar til stykkisins kemur.

Þá get ég ekki látið hjá líða að staldra aðeins við það efni máls sem hér hefur fyrst og síðast verið rætt, þ.e. um rétt samkynhneigðra til ættleiðingar. Ég get ekki neitað því, herra forseti, að mér finnst hæstv. ráðherra og raunar síðasti ræðumaður ekki síður, hv. þm. Hjálmar Jónsson, skauta dálítið létt yfir þetta álitaefni. Raunar ekki skauta yfir það heldur fram hjá því og veigra sér við að taka almenna efnislega umræðu um það og gefa þingheimi kost á að heyra almenn viðhorf þeirra til málsins. Því að auðvitað er ekki um þingtæknilegt mál að ræða fyrst og síðast. Það er það að vísu um leið eins og öll önnur mál sem til kasta Alþingis koma. En fyrst og síðast erum við að ræða um málið eins og það kemur fyrir efnislega. Höfum við tilfinningu og sannfæringu fyrir því að við eigum að taka skref í þá átt að leyfa samkynhneigðum að ættleiða að fullu eða að hluta? Ég er í þeim hópi sem vill taka afdráttarlaus skref í þá átt. Ég tel einmitt að undir þeim formerkjum ættum við að ræða það mál og það sé ekki eftir neinu að bíða. Af hverju ættum við ekki að gera það? Það er engin haldbær skýring í mínum huga þó að menn bendi á að það þurfi þá líka að breyta öðrum lögum, lögum um staðfesta samvist. Það er alveg hárrétt. En þá gera menn það samhliða.

Það væri fráleitt, svo ég staldri örlítið við hina lagatæknilegu hlið málsins, að í frv. til laga og væntanlegum lögum um ættleiðingar væri í engu getið um rétt samkynhneigðra ef menn væru síðan sammála því að breyta því í lögum um staðfesta sambúð. Það verður að vera samræmi í slíkum hlutum og það er undir þeim formerkjum og undir þessari umræðu sem menn eiga að ræða málið efnislega. Þess vegna kalla ég mjög ákveðið eftir efnislegri afstöðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar, sem hefur verið fremstur í flokki þeirra sjálfstæðismanna í mörgum málum af þeim toga sem lúta að við skulum segja siðferðilegum spurningum, að hann lýsi hispurslaust yfir afstöðu sinni til þessara mála. Hinni efnislegu afstöðu sinni. Ég hef fylgst með því eins og aðrir að kirkjunnar menn hafa rætt þetta mál í sínum hópi. Þeir hafa þó ekki náð landi enn sem komið er, ekki fyrir fullt og fast a.m.k., en ég skynja að þeim fjölgar æ í þeim hópi kirkjunnar manna sem hafa sýnt slíkri þróun mála velvilja og stuðning, og þess vegna væri sérstaklega áhugavert að heyra efnisleg viðhorf hv. þm. Hjálmars Jónssonar og ekki síður hæstv. ráðherra.

Ég hlýt að taka undir það sem kom fram í umræðu fyrr á þessum fundi um þetta sama mál að það er auðvitað ekkert efnislegt innlegg til málsins að vísa til þess að sænsk yfirvöld hafi nú í gangi víðtækar rannsóknir í þessum efnum. Það eru engir útúrsnúningar fólgnir í því af minni hálfu þegar ég segi þetta. Ég vek athygli á því eins og fleiri hafa gert að innlendar rannsóknir hafa farið fram sem gefa okkur ákveðnar vísbendingar sem við hljótum að byggja á að verulegu leyti. Þess vegna kalla ég á sama hátt eftir því að hæstv. ráðherra reifi í almennum orðum hugleiðingar sínar og viðhorf til þessarar þróunar mála af því ég veit að hún er vel inni í þessum málum og hlýtur eins og við hin að hafa mótað í huga sér einhverja afstöðu til þeirra viðkvæmu mála sem við höfum verið að ræða, þ.e. um rétt samkynhneigðra til að ættleiða.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, og undirstrika enn og aftur ánægju mína með frv. að öðru leyti. Það er svo sannarlega í rétta átt en gætum þess að nota þá ferðina og taka þau önnur nauðsynlegu skref sem að ég hygg að kallað sé eftir í samfélaginu og stuðningur við fer dagvaxandi.