Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:02:45 (411)

1999-10-12 16:02:45# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að rökin með og á móti verði vegin í hv. allshn. en ég finn mig knúna til að koma upp vegna orða hv. þm. Hjálmars Jónssonar varðandi biðina eftir þjóðkirkjunni, biðina eftir því að þjóðkirkjan gefi grænt ljós á blessun eða athöfn til handa þeim einstaklingum sem gangast undir lögmál staðfestrar samvistar. Við þurfum ekki að bíða eftir þjóðkirkjunni með neitt. Við þurfum ekki heldur að bíða eftir sænsku skýrslunni sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um áðan. Samkynhneigðir úti í samfélaginu bíða eftir þessari sjálfsögðu réttarbót á sama hátt og gagnkynhneigðir foreldrar bíða eftir þessari réttarbót og eins og hv. þm. Hjálmar Jónsson segir okkur.

Það sem ég vil segja er að Alþingi Íslendinga á að taka afstöðu með þegnum þessa samfélags. Við eigum í hegningarlögum okkar ákvæði sem segir að það sé bannað að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Það er bannað með lögum. Þess vegna er sjálfsagt mál að ættleiðingarmál samkynhneigðra verði leyst skjótt og örugglega af Alþingi Íslendinga núna í tengslum við ættleiðingarlögin.