Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:16:21 (415)

1999-10-12 16:16:21# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að teygja umræðuna á langinn. Ég vil hins vegar undirstrika það viðhorf mitt að það nýmæli sem er að finna í frv. um heimild til handa einhleypum til ættleiðingar er mjög til bóta. Ég velti því hins vegar eilítið fyrir mér hvort sá texti sem er hér settur niður á blað sé ekki í raun óþarfur. Ég sagði þetta áðan í ræðu minni með vísan til hinna almennu skilyrða ættleiðingar sem eru nánast samhljóða þeirri málsgrein sem um getur í 2. gr. hvort það sé ekki algerlega nægilegt að hin almennu skilyrði gildi um einhleypinga sem og aðra og því ástæðulaust að endurtaka það sérstaklega í 4. mgr. 2. gr.

Þetta vildi ég sagt hafa við 1. umr. og bið hv. nefndarmenn í allshn. að skoða alveg sérstaklega. Ég minni á að einstæðir foreldrar skipta tugum þúsunda.

Hvað varðar síðan hina tæknilegu hlið málsins, hina lagatæknilegu hlið málsins sem menn hafa staldrað við og ég skal henda mér út í þann pott örstutta stund og spyrja hæstv. dómsmrh.: Ef nefndin eða þingið kæmist að þeirri niðurstöðu að taka út þessi sérákvæði í lögum um staðfesta sambúð, sem samkvæmt orðanna hljóðan eins og hæstv. ráðherra las áðan gera það að verkum að samkynhneigðir geta ekki ættleitt og falla ekki undir þau lög sem við erum að fjalla um hér, ef Alþingi tæki nú af skarið með það, er þá ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að samkynhneigða bæri að telja upp í 2. gr. þessara laga og að óhjákvæmilegt væri annað en að þeir væru tíundaðir í þessum lögum, í þessu frv.?