Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:19:23 (417)

1999-10-12 16:19:23# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þetta svar því að ég veit að hæstv. ráðherra hefur talsverð tök á þingtækninni eftir að hafa verið formaður allshn. um langt árabil. Ég trúi því nú og vil trúa því að innst inni hljóti hún að vera mér sammála um að það væri algjörlega úr fasa ef að það væri vilji hins háa Alþingis að heimila samkynhneigðum að ættleiða börn að þá væri þess ekki getið í lögum um ættleiðingar. Það er undarleg nálgun í lagasetningu. Ég hlýt því að álykta sem svo, og það veldur mér vonbrigðum, að viðbára hæstv. ráðherra og raunar fleiri hv. stjórnarliða sé þá til orðin af þeim sökum að þeir vilji forðast umræðuna og forðast að taka afstöðu til þessa álitaefnis. Það komast þeir ekkert upp með og munu með einum eða öðrum hætti þurfa að taka afstöðu til þessa máls. Því að mér býður í grun að það komi hér fram brtt. sem munu einmitt taka á þessu álitaefni og þá þurfum við auðvitað ekkert að ræða þingtækni lengur. Þá þurfum við einfaldlega að láta samvisku okkar og afstöðu ráða för, og ég eins og hæstv. ráðherra.