Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:58:54 (426)

1999-10-12 16:58:54# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta kemur gagnagrunnsmálinu ekkert við, segir ráðherra. Vísindasiðanefnd á að úrskurða um álitaefni sem upp kunna að koma í tengslum við fyrirhugaðan samning um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Sá samningur er nú í smíðum. Þess vegna er þetta hitamál. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra var að tíunda það áðan að þessi nefnd væri óháð Íslenskri erfðagreiningu? Einfaldlega vegna þess að um það spyrja menn sjálfa sig og aðra. Að sjálfsögðu kemur þetta því við. Ráðherrann getur ekki vikið sér undan því.

Í framhaldi af því, þar sem sekúndurnar eru ekki alveg hlaupnar frá mér, er margt mjög undarlegt að gerast í samskiptum hæstv. heilbrrh. við læknastéttirnar og sérfræðinga ef því er að skipta. Fyrir fáeinum dögum var haldið læknaþing. Hæstv. heilbrrh. hunsaði það og menn spyrja sig: Hvers vegna? Menn eiga auðvelt með að finna skýringarnar. Það titrar allt vegna vantrausts manna á heilbrrn., ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra vegna samninga við Íslenska erfðagreiningu um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það er mergurinn málsins.