Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:04:51 (429)

1999-10-12 17:04:51# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er áfram gagnrýnt hvernig skipað er í nefndina. Ef menn líta á t.d. hvernig skipað er í slíkar nefndir á Norðurlöndunum, þá er það gert á ýmsan hátt. Sums staðar sitja meira að segja stjórnmálamenn í vísindasiðanefndum. Það er því allur gangur á því. En samkvæmt stjórnskipulagi á Íslandi er þetta mjög eðlilegt og ef við lítum á aðrar nefndir eins og t.d. tölvunefnd, þá er skipað í hana með þessum hætti.

Hv. þm. spurði hvar vísindin ættu sæti í nefndinni. Væri farið aftur yfir nöfnin þá held ég að hv. þm. mundi átta sig á því að þarna eru vísindamenn. Þarna eru læknar og hjúkrunarfræðingar, og ýmsir sérfræðingar. Ég held því að samsetning nefndarinnar sé alveg prýðileg, enda hefur það komið í ljós.