Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:19:32 (434)

1999-10-12 17:19:32# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Efnislega er vitnað rétt í Helsinki-sáttmálann. Ég ætla ekki að eyða frekari orðum á það. Þetta er orðhengilsháttur af hálfu hæstv. ráðherra.

Hitt skiptir meira máli, að hæstv. ráðherra neitar að skýra okkur frá því hvers vegna þessir óháðu aðilar eins og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Læknafélagið, Hjúkrunarfélagið, læknadeildin og lagadeild Háskóla Íslands, eru sviptir réttinum til að tilnefna í nefndina.

Síðan þegar spurt er um hvort athugun hafi verið gerð á því hvaða samningar læknar eða hópar lækna hafa gert við Íslenska erfðagreiningu um notkun á sjúkragögnum Íslendinga, þá leyfir hæstv. ráðherra sér að vísa þessu einfaldlega frá og segja: ,,Mér kemur þetta ekki við. Við hljótum að treysta þeim sem stýra sjúkrastofnunum.`` En á ekki hæstv. ráðherra að bera ábyrgð á og hafa eftirlit með þessum málum? Og ef Alþingi eða alþingismenn óska eftir upplýsingum af þessu tagi þá á að veita þær.

Ég spyr því í framhaldinu: Er hæstv. heilbrrh. reiðubúin að beita sér fyrir því í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið að slík athugun fari fram? Er hæstv. ráðherra reiðubúin að beita sér fyrir því að athugun fari fram á því hvort einstakir læknar, hópar lækna eða stofnanir, hafi samið við þetta fyrirtæki eða önnur um afnot af sjúkraskýrslum Íslendinga fyrir greiðslu?