Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:55:53 (443)

1999-10-12 17:55:53# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:55]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara mjög vandlega yfir málin áður en ráðist er í stórar fjárfestingar eins og jarðgöng eru. En ég nefndi þetta vegna þess að það er sú gangaframkvæmd vestra sem oftast er nefnd í mín eyru og margir töldu að fyrr yrði þessu ekki vel fyrir komið en þar væri myndaður hringur sem tengdi þá jafnframt norður- og suðursvæðið. Þar er Hrafnseyrarheiðin óneitanlega mikill þröskuldur eins og hún er í dag sem þyrfti ekki ýkjalanga eða dýra gangagerð til þess að ryðja úr vegi.

Auðvitað eru skipulögð vinnubrögð og sæmileg samstaða um þessi mál mjög mikilvæg og þeim mun mikilvægari sem um dýrar framkvæmdir er að ræða sem verður ekki ráðist í eða koma ekki til nema á vissum stöðum á landinu. Þess vegna var og er þeim mun meiri eftirsjá að því en ella að ekki skyldi takast að halda samfellt áfram skynsamlegri framkvæmdaáætlun þannig að menn gætu þó í öllu falli, þó að biðin væri löng, treyst því að röðin kæmi að þeim á réttum tíma og þeir yrðu ekki sviknir og ekki skildir eftir. Um það snýst málið ef menn eiga að geta haft trú á áætlanagerð og framkvæmdaröð, þ.e. að þeir hlutir haldi. Þó það bili ekki nema einu sinni verður mikið tjón gagnvart því að menn fyllast tortryggni og verða hræddir um sig og byrja að reyna að ota sínum tota, komast fram fyrir aðra svo sem skiljanlega þegar menn sjá hvað það getur orðið mönnum dýrt að vera aftastir á listanum.

Að vísu, herra forseti, ef mig minnir rétt á að heita svo að í gangi sé að búa til einhvers konar framkvæmdaáætlun um jarðgangagerð og það er vel en henni þyrfti að hraða, jafngífurlega mikilvægar og þessar ákvarðanir eru fyrir þau svæði sem í hlut eiga. Það er alveg ljóst að það er afgerandi fyrir byggðaþróun á Austurlandi, á Vestfjörðum og á Mið-Norðurlandi og þá sérstaklega fyrir Siglufjörð hvernig þessum hlutum verður skipað á næstu árum.