Samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:52:42 (459)

1999-10-13 13:52:42# 125. lþ. 8.3 fundur 42. mál: #A samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Við sem tókum þátt í umræðunni um þáltill. um byggðamál á síðasta kjörtímabili töluðum fjálglega og studdum ríkisstjórnina aldrei þessu vant í þeim tillögum sem hún lagði þar fram. Við vorum að vonum orðin langeyg eftir að sjá þess stað að framkvæma eigi eitthvert af þeim fyrirheitum sem þar voru gefin. Þar voru m.a. gefin fögur fyrirheit um samstarf skóla og atvinnulífs. Það sem hæstv. menntmrh. var að fara með hér áðan úr framhaldsskólalögunum olli mér á sínum tíma miklum vonbrigðum því að mér fannst ríkið firra sig ábyrgð á fullorðinsfræðslunni í landinu og setja hana yfir á byggðarlögin. Þau hafa mörg reyndar reynt að standa þar myndarlega að málum, en ég sé ekki að sú aukning sem var boðuð í byggðaáætluninni komi nokkurs staðar fram í þessu frv., jafnvel ekki þó að nú séu, guði sé lof, áætlaðir nokkrir peningar til fjarkennslu.