Samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:57:36 (462)

1999-10-13 13:57:36# 125. lþ. 8.3 fundur 42. mál: #A samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi fjárveitingarnar er það svo að þetta skiptist á tvo liði í fjárlagafrv. eins og ég sagði, annars vegar þann lið sem er beinlínis símenntunarliður og er nýr liður í fjárlagafrv. og hins vegar lið sem lýtur að fjarkennslu þar sem kemur fé annars vegar frá menntmrn. og hins vegar úr sérstökum upplýsingatæknisjóði sem ríkisstjórnin skiptir á milli ráðuneyta. Menn geta glöggvað sig á þessum tölum með því að skoða frv. betur en hv. þm. hefur gert.

Mér virðist ýmislegt í þessu hafa gerst örar en hv. þm. hefur skynjað og það er ekki rétt að þessar símenntunarmiðstöðvar hafi allar verið komnar á laggirnar þegar byggða\-áætlunin var samin og þær tillögur mótaðar. Þetta hefur gerst samhliða og það hefur gerst mjög hratt hjá menntmrn. að hrinda þessum ákvæðum í framkvæmd um fræðslunet og símenntunarmiðstöðvar sem við höfum staðið að og stutt að stofnaðar yrðu. Ég held að það hafi orðið gjörbylting, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason vakti máls á, að á örskömmum tíma hafi orðið gjörbylting að þessu leyti varðandi menntunarframboð á landsbyggðinni. Það ber ekki að gera lítið úr því heldur þvert á móti að meta mikils það góða starf sem unnið hefur verið bæði í skólunum og hjá heimaaðilum við að koma þessu í þann farveg sem nú blasir við. Nú um helgina, á morgun og á föstudaginn, verður sérstakur fundur þessara aðila í Reykholti í Borgarfirði því að þeir hafa stofnað með sér samstarfsvettvang. Þeir héldu fund á Austurlandi fyrir nokkrum mánuðum og hittast aftur núna. Það er verið að skipuleggja þetta samstarf með mjög markvissum hætti á milli ráðuneytisins og þessara aðila.