Framboð á leiguhúsnæði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:59:38 (463)

1999-10-13 13:59:38# 125. lþ. 8.4 fundur 30. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Nú er komin til framkvæmda ný húsnæðislöggjöf sem var mjög umdeild og hart tekist á um í þingsölum. Því miður eru verstu hrakspár sem þá voru hafðar uppi að rætast. Kjörin þyngjast stórlega með breyttri húsnæðislöggjöf og mun það án efa valda holskeflu gjaldþrota þegar fram líða stundir. Mönnum ber saman um þetta sem starfa að ráðgjöf á þessu sviði.

En þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir erfiðari kjör þá eiga nú fleiri aðgang að þessu kerfi en áður. Það hefur valdið því að verðlag hefur rokið upp á fasteignamarkaði í tengslum við aukna eftirspurn. Verðlag hefur hækkað á fasteignamarkaði. Sífellt fleiri sem átt hafa leiguíbúðir og leigt þær út reyna nú að selja þær og það á uppsprengdu verði. Allt hefur þetta keyrt leigukostnaðinn upp. Á síðustu mánuðum hefur hann aukist um 50--80%. Algengt er að menn greiði í leigu fyrir þriggja herbergja íbúð 50--55 þús. kr. á mánuði hverjum, 60--70 þús. kr. á mánuði hverjum fyrir fjögurra herbergja íbúð og fyrir eitt herbergi greiða menn iðulega 25--30 þús. kr. á mánuði.

Leigjendasamtökin lýstu nýlega yfir neyðarástandi á leigumarkaði en neyðin er ekki mæld í löngum biðröðum. Hún er mæld í lágum tekjum og hærri leigu. En ef litið er á biðraðirnar sem myndast hafa í húsnæðiskerfinu þá hef ég fengið það staðfest að fyrir réttu ári biðu 256 einstaklingar eftir leiguíbúð hjá Öryrkjabandalaginu. Nú eru þeir 352 talsins. Hjá Félagsstofnun stúdenta voru fyrir um það bil ári síðan 50 manns á biðlista. Nú eru þeir 283 talsins og þannig má áfram telja um það ástand sem ríkisstjórnin hefur skapað með breyttri löggjöf á þessu sviði.

Nú beini ég eftirfarandi spurningu til hæstv. félmrh. sem er fyrir hönd ríkisstjórnarinnar ábyrgur fyrir þessum málaflokki: Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa og ríkisstjórnin til að auka framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum?