Varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:21:47 (471)

1999-10-13 14:21:47# 125. lþ. 8.5 fundur 36. mál: #A varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir góð svör sem hann gaf hér. Ég vil líka þakka undirtektir hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar í þessu máli. Ég tel þó, hæstv. ráðherra, að ekki hafi verið litið á málið nægilega alvarlegum augum. Þetta er stærra en hér var nefnt og ég sé ekki einu sinni að þeim áætlunum, sem voru nefndar í byggðaáætlun um 300 millj. kr. framlag til þessa máls, sjái stað í fjárlögum eða fjárlagafrv. þó að það gæti kannski leynst. Þar fyrir utan eru allt of lágar upphæðir til þess að leysa málið. Varasjóðurinn er eins og vitað er ekki með þá fjármögnunarmöguleika sem til þurfa að koma. Við höfum heyrt frá sveitarfélögum eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega, t.d. frá Vestfjörðum, að þar er verið að tala um í heilu sveitarfélögunum kannski margfaldar þessar upphæðir sem hann nefndi þar að þyrfti til eða ætti að koma í gegnum byggðaáætlun.

Ég legg áherslu á að þetta mál sé tekið mun fastari tökum en hefur verið gert undanfarið og þessu fylgt eftir. Þetta er hluti af fjárhagsvanda þessara sveitarfélaga, þetta er hluti af rekstri þessa kerfis á vegum ríkisins sem ríkið ber ábyrgð á og ber að standa að með þeim myndugleik að þetta verði ekki baggi á búsetu landsins.