Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:35:14 (475)

1999-10-13 14:35:14# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar spurt er um áhrif stóriðjufyrirtækja í fámennum byggðarlögum þá hygg ég að reynsla Akurnesinga svari þeirri spurningu nokkuð vel. Í þessu 5 þús. manna byggðarlagi hefur verið starfrækt sementsverksmiðja í yfir 40 ár, járnblendiverksmiðja við túnfótinn í rúm 20 ár og nú síðast álbræðsla á sama stað í rúm tvö ár. Tilkoma allra þessara verksmiðja hefur leitt til verulegrar fólksfjölgunar á Akranesi og hleypt miklu lífi í margþætta þjónustustarfsemi svo sem iðnfyrirtæki, vélsmiðjur, trésmiðjur, rafmagnsverkstæði, tölvuþjónustu, fatahreinsun, bifreiðaþjónustu o.fl. Þetta hafa ekki síður verið eftirsóttir vinnustaðir. Menn hafa sóst eftir að komast þarna í störf og það sést best á því að meðalstarfsaldur í Sementsverksmiðjunni og Járnblendiverksmiðjunni mun vera um eða yfir 20 ár. Reynsla þessa 5 þús. manna byggðarlags af þremur stóriðjum er því öll á einn veg --- mjög góð.