Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:37:57 (477)

1999-10-13 14:37:57# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Íbúum á Austurlandi hefur fækkað mikið undanfarin ár og það er mjög óheillavænleg þróun. Það er sorgleg saga. Við sem búum á landsbyggðinni óskum einskis frekar en að draga megi úr þessum fólksflótta, að hann megi stöðva. En svo stórt fyrirtæki sem taka á til starfa í fámennum fjórðungi hefur gífurleg áhrif í samfélaginu. Það er á ábyrgð félmrn. og annarra sem koma að þessu að vera meðvitaðir um þau áhrif sem þetta getur haft inn í svo litlu samfélagi til þess að geta gert varúðarráðstafanir og hliðarráðstafanir. Hvað þarf að vera til staðar og hvað þarf að byggja upp til að skaðleg áhrif af svo hraðri uppbyggingu og stórum vinnustað verði sem minnst? Vissulega er verið að þessu til að fjölga í byggðarlaginu. Það efast ég ekki um en það verður að sjá til að skaðleg áhrif verði sem minnst.