Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:40:43 (479)

1999-10-13 14:40:43# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þetta er ágætis umræða um þessa ágætu fyrirspurn. En svo að það sé skýrt, ég veit að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerir sér fulla grein fyrir því, þá fer nú fram og hefur staðið yfir í langan tíma mat á umhverfisáhrifum fyrir Fljótsdalsvirkjun og áhrifum álvers á Austurlandi. Á næstu dögum verður mat á umhverfisáhrifum fyrir álver á Austurlandi kynnt. Þá verður öllum þessum spurningum hv. þm. svarað vegna þess að mat á umhverfisáhrifum gengur ekki bara út á að telja hreiður eða skorkvikindi á svæðinu og lýsa dýra- eða plöntulífi heldur gengur það líka út á áhrifin á mannlíf, efnahag, tekjur fólks í landinu og byggðaþróun í fjórðungnum. Öllum þessum spurningum verður svarað í þessu mati á umhverfisáhrifum sem verður kynnt núna innan tíðar.