Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:41:57 (480)

1999-10-13 14:41:57# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tek að sjálfsögðu undir með hv. þm. sem hér hafa haft áhyggjur af íbúaþróun á landsbyggðinni allri. Ég legg áherslu á það sem ég hef áður bent á að álver á Austurlandi bjargar ekki byggðaþróun í landinu.

Ég skil örvæntingarfullar tilraunir sveitarstjórnarmanna á Austfjörðum og mér þykir gott að heyra að hæstv. félmrh. hafi haft ákveðnar áhyggjur af stóriðju í Hvalfirði og lágu orkuverði. Ég vona að hæstv. félmrh. verði þessa minnugur þegar væntanlegir orkusölusamningar koma til umræðu varðandi álverið á Austurlandi.

Varðandi Hvalfjörð og stóriðju þar, þá er Hvalfjörður innan atvinnusvæðis Reykjavíkur, höfuðborgarsvæðisins. Þar erum við ekki að tala um áhrif á fámennt samfélag. Við erum að tala um áhrif á allt annars konar samfélag. Það verður að vera alveg á hreinu.

Ég vil gera örlitla athugasemd, virðulegi forseti, við það sem hæstv. iðnrh. sagði hér. Ég veit að sjálfsögðu að á leiðinni er frummatsskýrsla Landsvirkjunar sem hæstv. iðnrh. kallar gjarnan mat á umhverfisáhrifum. Ég veit það að sjálfsögðu og hlakka til að fá að lesa það sem þar stendur um áhrif viðkomandi framkvæmda á samfélagið fyrir austan. Ég ber hins vegar fram fyrirspurnina af mjög meðvituðum ástæðum til hæstv. félmrh. Ég treysti því að hæstv. félmrh. fylgist þá með þeim skýrslum og þeim umsögnum sem fram koma í frummatsskýrslu Landsvirkjunar.

Hæstv. félmrh. telur þessa tilraun tilraunarinnar virði. Að mínu mati þarf að taka þessa ákvörðun með fullri meðvitund þar sem reynsla annarra þjóða er metin og kortleggja þarf möguleg neikvæð áhrif svo að koma megi í veg fyrir slys.