Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:44:12 (481)

1999-10-13 14:44:12# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það vill svo til að ég veit að ráðgjafarfyrirtæki er að vinna viðamikla könnun á áhrifum á Reyðarfjörð, ekki á Eyjabakka heldur á Reyðarfjörð. Það er ekki sú könnun sem hæstv. iðnrh. vitnaði til um mat á umhverfisáhrifum. Þessi skýrsla er ekki tilbúin enn þá en verður það væntanlega fljótlega. Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með niðurstöðum hennar.

Það er mjög alvarlegt hversu mikið vonleysi hefur gripið um sig á landsbyggðinni og það er ástæðan fyrir þeim miklu og háskalegu þjóðflutningum sem við upplifum núna. Það er afar mikilvægt að byggja upp á landsbyggðinni þannig að eftir sé tekið, eitthvað sem aukið getur bjartsýni manna og snúið þróuninni við. Þar duga engar smáskammtalækningar. Það verða að vera verkefni sem virkilega verða til að auka fólki bjartsýni.

Ég er búinn að vera þingmaður lengi og hef upplifað þá tíma að straumurinn lá út á land, að aukningin varð meiri úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu. Á áratugnum frá 1970--1980 fjölgaði meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það var fyrst og fremst vegna þess að þá var í uppbyggingu stóriðja allt í kringum land í fiskvinnslu og togaraútgerð.