Aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:46:37 (482)

1999-10-13 14:46:37# 125. lþ. 8.7 fundur 31. mál: #A aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin sem ég legg hér fram varðar aðgerðir á vettvangi sjávarútvegsins til að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Forvitnilegt væri að heyra hver markmiðin eru í hæstv. sjútvrn. og hvaða samdráttar sé að vænta í losun gróðurhúsalofttegunda á þeim vettvangi hérlendis á næstu árum.

Eins og okkur er öllum kunnugt eru Íslendingar aðilar að samningi þeim er gerður var í Ríó árið 1992 og við þekkjum sem rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Það hefur komið fram hjá hæstv. umhvrh. og embættismönnum umhvrn. að við stöndum okkur fremur vel í þeim efnum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, jafnvel svo vel að losunin um þessar mundir er ekki mikið meiri en hún var viðmiðunarárið 1990, vel að merkja ef frá eru talin öll stóriðjuverkefni undanfarinna níu ára. En eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin óskað eftir því að stóriðjuáform okkar verði undanskilin þeim losunarheimildum sem Íslendingar hafa.

Eins og allir vita er flotinn frekur hvað varðar þennan útblástur, það er ekkert eitt fyrirbæri í atvinnurekstri okkar sem losar jafnmikið af gróðurhúsalofttegundum svo mér þætti fengur að því að heyra hæstv. sjútvrh. segja okkur hvaða aðgerðir séu í gangi á vegum ráðuneytis hans og legg áherslu á að við heyrum frá útlöndum að þar séu mjög víðtækar aðgerðir í gangi hvað varðar aðgerðir til að draga úr slíkri losun.