Aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:50:06 (484)

1999-10-13 14:50:06# 125. lþ. 8.7 fundur 31. mál: #A aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrispyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég tel að þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra lýsti séu allra góðra gjalda verðar.

Ég vil vekja athygli á því að fyrir u.þ.b. einu ári var stofnað á Íslandi Hið íslenska vetnis- og efnarafalafélag, ekki síst fyrir tilstuðlan hæstv. iðnrh., að meiri hluta til í eigu Íslendinga en að auki í eigu þriggja stórra alþjóðlega fyrirtækja. Verkefni þessa félags er að gera íslenskt efnahagslíf að vetnissamfélagi. Eitt tíu verkefna sem þetta félag hefur nú unnið að á sl. ári í samstarfi við hina alþjóðlegu risa er að vetnisvæða íslenska fiskiskipaflotann og fyrsta tilraunin af þeim toga mun hefjast innan fárra mánaða.

Það er sannfæring mín að innan 20 ára getum við séð íslenska fiskiskipaflotann á efnarafölum, metanóli eða vetni sem þýddi að hann væri mengunarlaus. Ég tel vert að draga þetta fram í umræðunni, enda eru Íslendingar og eiga að geta verið leiðandi á þessu sviði í veröldinni.