Kostnaður af losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:54:40 (488)

1999-10-13 14:54:40# 125. lþ. 8.8 fundur 33. mál: #A kostnaður af losun gróðurhúsalofttegunda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. iðnrh. og fjallar um kostnaðinn af losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og okkur er kunnugt leyfir rammasamningurinn, loftslagssamningurinn að verslað verði með losunarheimildir, svokallaðan kvóta, og sett verði á þá losun einhver mörk sem sé síðan hægt að versla með, bæði innan lands og í milliríkjaviðskiptum. Auðvitað er ekki komið að því að versla með þennan kvóta en þó er greinilegt að menn eru að undirbúa þetta af miklum hraða og miklu kappi.

Spurningar mínar til hæstv. iðnrh. eru eftirfarandi:

1. Hverjum ætlar ríkisstjórnin að bera hugsanlegan kostnað af losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjufyrirtækjum hérlendis?

2. Hversu háum fjárhæðum gæti slíkur kostnaður numið af losun CO2-ígilda frá 480 þúsund tonna álbræðslu miðað við núverandi hugmyndir manna um markaðsverð á losunarkvótum? Hér er ég að sjálfsögðu með væntanlega álverksmiðju á Reyðarfirði í huga.

3. Hvaða hugmyndir hafa menn gert sér um greiðslur fyrir losunarkvóta í hagkvæmniforsendum álbræðslu á vegum Noral á Reyðarfirði, bæði í fyrsta áfanga og síðari áföngum hennar?

4. Er fyrirliggjandi arðsemismat fyrirhugaðrar álbræðslu á Reyðarfirði, frá fyrsta áfanga og til síðari áfanga hennar? Ef svo er, hvernig hefur verið tekið á svokölluðum fórnarkostnaði í því mati? Hér á ég að sjálfsögðu við þann fórnarkostnað sem almennt hefur verið talað um í tengslum við bæði virkjanir og það að leggja land undir álver af þeirri stærð sem um ræðir.

5. Er gert ráð fyrir að álbræðslan verði búin vothreinsibúnaði til að takmarka útstreymi brennisteinssambanda og annarra skaðlegra efna? Eins og fólk veit er ekki vothreinsibúnaður í neinni álverksmiðju á Íslandi og þætti mér fróðlegt að heyra frá hæstv. iðnrh. hvaða áætlanir eru uppi varðandi það mál á Reyðarfirði. Það er vitað að vothreinsibúnaður hreinsar talsvert mikið í burtu af brennisteinssamböndum og reyndar flúorefnasamböndum líka út úr losuninni.