Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:18:40 (493)

1999-10-13 15:18:40# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál hérna upp. Segja má að athyglin sé aldrei of oft dregin að því ófremdarástandi sem ríkir í byggðamálum á Íslandi um þessar mundir. Í reynd er það svo að frá og með árinu 1993, í stjórnartíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl., hefur þetta ástand farið versnandi ár frá ári og er nú svo komið að tölurnar eru eins og málshefjandi vitnaði til að upp undir 2.000 eða jafnvel yfir 2.000 manns á þessu ári, ef svo heldur sem horfir, flytja árlega af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins umfram þá sem þangað flytja.

Ekki er hægt að koma miklu að á tveimur mínútum, herra forseti, og ég leyfi mér því að vísa til tillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um sérstakar aðgerðir í byggðamálum, en reyndar háttar svo til að umræður um hana standa einmitt yfir á Alþingi, en þeim var frestað í gærkveldi.

Um slíkar tölur að öðru leyti segi ég aftur þetta. Það er aðeins hægt að nota eitt orð um þetta, það er ófremdarástand. Það verður að gera allt sem hægt til að snúa því við. Enginn vafi er á því að leitun er að arðbærari fjárfestingu um þessar mundir fyrir íslenskt samfélag en að snúa þessu ástandi við. Herkostnaðurinn af þessu ástandi er þvílíkur fyrir allt þjóðarbúið og er farinn að brenna í æ ríkari mæli á því svæði sem tekur við fólksflutningunum. Til marks um það eru útreikningar sem sveitarfélögin hér hafa gert á því hvað þetta ástand kostar þau árlega og til marks um það er ályktun frá fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem vitnað var til áðan. Enginn vafi er á því, herra forseti, að enn fremur þurfum við að hafa það í huga að við höfum mjög skamman tíma til stefnu. Einfaldur framreikningur á þeim tölum sem við okkur blasa sýnir að haldi svo sem horfir verður byggðahrun í mörgum byggðarlögum og jafnvel heilum landshlutum á Íslandi innan 15--25 ára. Það væri auðvitað stórslys, herra forseti, sem allir hljóta að vera sammála um að beri að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir.