Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:23:17 (495)

1999-10-13 15:23:17# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Við Íslendingar eigum við vanda að etja vegna mikilla búsetubreytinga. Það dylst engum, það vita allir. Og reyndar einnig það að þetta er sameiginlegur vandi alls hins vestræna heims.

Byggðaáætlun hæstv. forsrh. sem Alþingi samþykkti á síðasta reglulega þingi er metnaðarfull áætlun og eftir henni er farið að vinna að nokkru leyti. Það ásamt góðu efnahags\-ástandi er vonandi þegar farið að skila árangri. Allir þurfa að vinna að þessu í sameiningu, enginn einn flokkur eða hópur er undanskilinn því að bera ábyrgð á þessu ástandi.

Ef út í það er farið þá hafa kratar haft hlutfallslega mest áhrif á landsstjórnina undanfarna áratugi og þeir geta síst firrt sig ábyrgð á því hvernig komið er í þessum málum. (Gripið fram í: Hver var byggðamálaráðherra í níu ár?) Þessi grátklökki æsingur hv. þm. Kristjáns L. Möllers áðan styrkir heldur ekki byggð í landinu. Við þurfum að hrinda byggðaáætluninni í framkvæmd meira og meira, vinna að því ásamt heimafólki á stöðunum, það er leiðin, en ekki að kenna öðrum um eða fría sig ábyrgð.