Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:31:38 (499)

1999-10-13 15:31:38# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Enn einu sinni hlýðum við á umræður um byggðavandann. Þær eru um margt keimlíkar því sem áður hefur verið rætt enda ekki furða, þetta er ekki nýr vandi, og það er ekki í fyrsta skipti sem við sjáum tölur sem valda ugg meðal þjóðarinnar.

Það sem er athyglisvert er það að nú virðist hafa orðið vendipunktur í umræðunni á höfuðborgarsvæðinu. Um síðustu helgi var samþykkt ályktun á fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem kallað er á aðstoð frá ríkisvaldinu til þess að geta tekið við þeim mikla fjölda sem streymir því miður hingað suður. Það er hins vegar, herra forseti, enginn skortur á tillögum og það er með ólíkindum að hæstv. forsrh. skuli koma enn einu sinni og tala um að leita þurfi nýrra leiða, það þurfi að rannsaka, það þurfi að skoða og það þurfi að velta upp vegna þess að þetta hefur verið gert áður. Allt síðasta kjörtímabil þurfti ríkisstjórnin að rannsaka og leita leiða og rétt fyrir lok kjörtímabilsins komu tillögur, bæði samþykkt þáltill. og síðan sérstök tillaga frá nefnd forsrh. um byggðamál. Þessar tillögur liggja allar fyrir og það verður að segjast eins og er að það hlýtur að vera lágmarkskrafa, þegar fyrst kemur fram fjárlagafrv. frá nýrri ríkisstjórn, sem er að hefja nýtt kjörtímabil þar sem þessar tillögur liggja fyrir, að þess sjáist einhver merki að einhver meining hafi verið með gerð þessara tillagna. Því er tekið fagnandi þegar hæstv. forsrh. lofar að tillögurnar muni koma fram í þingsölum áður en fjárlögum verður lokið. Með því verður fylgst, hæstv. forsrh., og við segjum nú þegar hæstv. forsrh. hefur sitt þriðja kjörtímabil, ekki meir, ekki meir í þessum efnum.